„Ég held að Vestfirðir eigi gríðarlega mikið inni“

„Þó að malarvegir séu sjarmerandi, þá munum við á næstu fimm árum upplifa byltingu með hringtengingu Vestfjarða,” segir Halldór Halldórsson í Ögri, sem rekur ferðaþjónustu í sumarfríum með systkinum sínum. Hann telur að ferðaþjónustan þyrfti að birtast á faglegri hátt út á við.

Halldór Halldórsson við Reykjavíkurhöfn Mynd: ÓJ

Fjölskyldufyrirtæki eru algeng í ferðaþjónustu á Íslandi og eitt þeirra er Ögur ehf., sem stofnað var 2011 af sjö systkinum frá Ögri við Ísafjarðardjúp og móður þeirra. Áður höfðu systkinin unnið stefnumótunarvinnu með það að markmiði að byggja upp ferðaþjónustu í Ögri. Nú rúmum áratug síðar bjóða Ögurferðir (Ögur Travel) ferðafólki margskonar afþreyingarmöguleika: kajakferðir um Djúpið, gönguferðir og veitingar í Gamla samkomuhúsinu í Ögri, þar sem fræg böll eru haldin – Ögurböllin. Konur frá Ísafirði starfrækja kaffihúsið.

Túristi mælti sér mót með einu systkinanna úr Ögri, Halldóri Halldórssyni, sem áður var bæjarfulltrúi í Grindavík, framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfjarða, bæjarstjóri á Ísafirði, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og borgarfulltrúi í Reykjavík. Það má kannski rekja rætur Ögurferða að einhverju leyti til Ísafjarðarára Halldórs, þar sem hann hóf að róa með kajakklúbbnum og tók síðan að sér leiðsögn einstaka sinnum fyrir ferðaþjónustufyrirtæki í bænum. Svo árið 2011 var komið að því að láta draumana rætast. 

„Hugmyndin var alltaf sú að finna aðferð til að glæða Ögur meira lífi. Þar var hefðbundinn búskapur að leggjast af þegar við systkinin vorum að ræða þetta. Við vildum líka finna leið fyrir okkur sjálf til að geta verið meira í Ögri. Þróunin hefur orðið sú að þetta er sumarfrísvinna,” segir Halldór. 

Það er auðvitað þjóðlegt að tala um sumarfrísvinnu – að vera í fríi en samt að vinna! 

„Við skiptumst á að vera með leiðsögn í ferðum. Ég hef tekið allar langar ferðir að mér, fimm daga kajakferðir, en þær eru fáar. Ég fór bara tvær slíkar í sumar. Sumarfríið er bara ekki það langt að hægt sé að fara í margar slíkar ferðir,” bætir Halldór við og hljómar eins og hann væri alveg til í fleiri ævintýri á kajak úti á Djúpi. 

Halldór staddur á Hömlum. Snæfjallaströnd í baksýn. Sér út að Rit milli Jökulfjarða og Aðalvíkur.
Mynd: Ögur Travel

Túristi hefur í sumar heyrt fólk í ferðaþjónustu segja frá því að það hafi verið spurt hver sé aðalvinnan þess þegar það einmitt segist vera í ferðaþjónustu. Margir virðist fastir í því að ferðaþjónustustarf sé hobbí. Hjá systkinunum frá Ögri er það að vísu raunin: Ögurferðir eru þeirra hobbí. 

„Já, við erum svona hobbífólk. Kajakróður og gönguferðir eru aðallega í boði fimm eða sex mánuði ársins. Eiginlega engir panta slíkar ferðir frá október og fram í apríl. Þetta hefur þróast þannig að í stað þess að við séum alltaf til taks, eins og við vorum árin 2011-13, þá höldum við okkur við að taka við bókunum. Við vísum mjög mikið á önnur fyrirtæki, á Ísafirði og annars staðar fyrir vestan.”

Ferðamiðlarar sjá um bókanir í lengri ferðirnar hjá Ögurferðum en þau sjálf bóka í dagsferðir. 

„Þetta hefur þróast öðruvísi en við bjuggumst við. Við héldum á fyrstu árunum að þetta yrði heilsársstarf fyrir eitthvert okkar en aðrar aðstæður breyttu því. Þetta hefur því haldið áfram sem sumardjobb. Við sáum fyrir okkur að smám saman bættist gisting við og þannig sköpuðust forsendur fyrir heilsársstarfi en það hefur ekki orðið af því enn. Til þess þyrfti eitthvert okkar að búa í Ögri. Þrátt fyrir að við höfum öll alist þar upp hefur ekkert okkar verið tilbúið að taka það stökk.”

Þó Ögurferðir séu fjölskyldubissniss sem rekinn er í sumarfrííum eigendanna þá kallar starfsemin á nokkra fjárfestingu og breytingar á framboði ferða.  

„Þegar við byrjuðum 2011 vorum við með sjö kajaka en þeir eru sautján núna. Meiri áhersla er lögð á langar ferðir en minna er í boði af dagsferðum. Þessar löngu ferðir eru farnar um Djúpið, yfir að Snæfjallaströnd, út í eyjar eða að Folafæti. Gist er í tjöldum í fjórar nætur. Ef hópurinn er röskur er hægt að róa yfir Djúpið í Jökulfirði. En sumarið hefur verið erfitt, breyta þurfti áætlun í báðum löngu ferðunum sem ég fór vegna veðurs. Við völdum að fara inn Djúpið í stað þess að fara út á það. Níutíu prósent þeirra sem fara í kajakferðirnar eru útlendingar en í gönguferðunum er hinsvegar jafn hátt hlutfall Íslendingar. Áður voru skipulagðar gönguferðir kynntar á síðunni okkar. Þær voru hinsvegar ekki mikið pantaðar svo nú hefur þetta breyst: Fólk hefur samband og biður okkur um leiðsögn um tiltekin svæði, á Drangajökul eða annað. Þetta hafa verið margskonar gönguhópar, líka Rótarýklúbbar. Þá flytjum við fólkið, t.d. að Tyrðilmýri á Snæfjallaströnd, þar sem vegurinn endar, og göngum út með ströndinni. Ef það tekur allan daginn, sem er algengt, þá erum við sótt af bát og flutt til baka að Tyrðilmýri. Þetta hafa verið 30-50 manna hópar.”

Náttstaður á Vatnsfjarðarnesi í kajakferð – Mynd: Ögur Travel

Við ræðum gagnsemi samfélagsmiðla fyrir lítið ferðaþjónustufyrirtæki eins og Ögurferðir.

„Við þurfum ekki að auglýsa eða uppfæra mikið heimasíðuna, virðumst gúgglast það vel undir sea kayaking in Iceland eða álíka. Kúnninn sér um þetta.” 

Halldór segist ekki vita hver verði framtíð Ögurferða. Það geti ráðist af áhuga barna þeirra Ögursystkina. Erfitt sé að sinna þessu með annarri fullri vinnu. Ég get alveg séð fyrir mér að næstu fimm til tíu árin verði þetta svipað. Við höfum verið að gera upp Læknishúsið í Ögri sem er næsta hús við Samkomuhúsið. Það var á sínum tíma byggt sem sjúkrahús og fyrir lækninn. Í þessu húsi erum við systkin alin upp. Við sjáum fyrir okkur að þegar endurbætur verða lengra komnar gætum við boðið upp á einhverja gistingu í húsinu. Hver veit hvað gerist? Við erum alla vega ekki tilbúin að sleppa takinu.”

Túristi er að ræða við fulltrúa fjölskyldu sem ann heimahögunum og eyðir frístundum í að reisa við staðinn sem fóstraði hana. Þetta er sumarvinna og tómstundagaman, sem glæðir staðinn lífi og skapar einhver störf. Halldór býr að langri reynslu í forystu landsbyggðarsamtaka og sveitarstjórna, þekkir vel til víða um land. Hvað segir hann um þá skoðun margra í ferðaþjónustunni að greinin sé ekki tekin nógu alvarlega í stjórnkerfinu – ekki eins og sjávarútvegur og landbúnaður?

„Ég held að það sé töluvert til í þessu og hef velt þessu fyrir mér, lesið viðtöl og séð hvernig greinin kemur fram. Mér finnst vanta meiri fagmennsku út á við. Ein ástæðan gæti verið að greinin er tiltölulega ung, ekki jafn rótgróin og landbúnaður og sjávarútvegur. Svo er eitthvað sem ég get ekki alveg fest hendur á: Það vantar vandaða umfjöllun. Greinin er mjög sveiflukennd. 

Fólk eins og við í Ögri erum bara í þessu yfir hásumarið. Einhver myndi segja að við værum að sleikja rjómann ofan af. Við sjálf myndum frekar segja að við vildum hjálpa til þegar kúfurinn er mestur. En á meðan þetta er ekki ársgrundvelli verður varla sami atvinnumennskubragurinn á þessu. Ég held að það sé staðreynd.”

Ferðaþjónustan sem heild er auðvitað starfandi árið um kring. Ferðafólkið kemur á öllum tímum árs og getur keypt þjónustu um allt land. Þess vegna eru auðvitað forsendur fyrir því að byggja upp fagmennsku og áhrif í samfélaginu. Áfram munu hinsvegar starfa mörg lítil fyrirtæki, fjölskyldufyrirtæki eins og Ögur ehf. og svo einstaklingar sem kunna því vel að vera eigin herrar í ferðaþjónustu. 

„Þessi grein á eftir að taka út mikinn þroska. Og þó að ég tali um skort á vandvirkni vil ég taka fram að nú kemur maður við á stöðug fleiri stöðum um allt land sem eru betur reknir á allan hátt en áður tíðkaðist.”

En hvernig á ferðaþjónustan eftir að þróast?

„Að því gefnu að ekki verði einhver áföll, heimsfaraldrar, stríð eða eitthvað ömurlegt, þá á ferðaþjónustan á Íslandi bara eftir vaxa og grunngerðin með. Grunngerðin hefur verið dálítið á eftir. Ég held að Vestfirðir eigi gríðarlega mikið inni. Þó að malarvegir séu sjarmerandi, þá munum við á næstu fimm árum upplifa byltingu með hringtengingu Vestfjarða. Ég held að það sé góð hugmynd að stofna sérstakan fjárfestingarsjóð um verkefni í ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Ég held að Vestfirðir nái miklu meiri árangri ef byggð verða a.m.k. tvö flott hótel, annað á sunnanverðum Vestfjörðum en hitt á þeim norðanverðum – hótel sem gera betur en þau sem fyrir eru núna. Ég held t.d. að það séu miklir möguleikar á Ísafirði fyrir hótel í sama klassa og Sigló Hótel.”

Við ljúkum spjallinu.

Auðvitað er ánægjulegt að einstaklingar og fjölskyldur taki sig til að sinna ferðaþjónustu í sátt við umhverfið og renni stoðum undir byggð – í lengri eða skemmri tíma á hverju ári. Er þetta ekki leið sem margir geta farið vítt og breitt um landið?

„Jú, ég er á því. Þegar við héldum fund árið 2011 með fólkinu í sveitinni um framtíð Gamla samkomuhússins í Ögri þá sagði ég að því fleiri sem sinntu ferðaþjónustu í Djúpinu myndi ferðafólkinu fjölga. Ég lít ekki svo á að eitt fyrirtæki bætist við þá taki það viðskipti frá öðrum. Fyrir 20 árum gastu rekið svona þjónustu í sex vikur en nú er það í raun mögulegt í sex mánuði. Þetta þokast því stöðugt nær því að geta verið með heilsársrekstur – ef fólk vill það. Við hjá Ögurferðum erum hinsvegar á lítilli syllu. Það koma fáir til landsins sem vilja fara í fimm daga sjókajakferð.”

Flogið yfir Ísafjarðardjúp á rigningardegi í sumar: Æðey og Snæfjallaströnd í baksýn – Mynd: ÓJ