Fjögur ESB-ríki vísa rússnesku ferðafólki burt

Landamærabærin Narva í Eistlandi Mynd: Geonarva-Creative Commons

Pólland, Eistland, Lettland og Litáen hófu þessar aðgerðir gegn komum Rússa á mánudag en Finnland hefur ekki enn gripið til sömu ráðstafana. Finnar takmarka þó komur rússnesks ferðafólks með því að bóka færri viðtöl vegna beiðna um vegabréfsáritun. 

Evrópusambandið og aðildarríki þess hafa stöðugt hert refsiaðgerðir gegn Rússum frá því innrás þeirra í Úkraínu hófst 24. febrúar síðastliðinn. Allt flug frá Rússlandi hefur verið bannað, aðeins er hægt að ferðast frá Rússlandi með lestum eða akandi, og fyrr í mánuðinum voru sett mörk á útgáfu ferðaheimilda um Schengen-svæðið. 

Aðgerðir Póllands og Eystrasaltsríkjanna beinast gegn rússnesku ferðafólki en andófsfólk sem óskar landvistar, bílstjórar vöruflutningabíla, flóttamenn og allir sem eiga lögheimili í Evrópusambandslöndum og þeir sem ætla sannanlega að heimsækja ættingja, eru undanskildir banni um að fara yfir landamærin.

Reuters-fréttastofan segir frá því að á sunnudagskvöld hafi Rússar hópast í gegnum eistneska landamærabæinn Narva áður en nýju reglurnar tóku gildi. Níu af hverjum tíu íbúm bæjarins eru rússneskumælandi. Margir Rússar sem sótt hafa vinnu eða eru á annan hátt háðir nánum samskiptum þvert á landamæri eru nú uggandi um sinn hag.

Eystrasaltsríkin þrjú, sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum en eiga nú aðild að Evrópusambandinu, eru afdráttarlaus í afstöðu til innrásar Rússa í Úkraínu. Lettneski utanríkiráðherrann, Edgar Rinkevics, sagði í færslu á Twitter á dögunum: „Rússar, reynið ekki að koma yfir landamærin. Þið eruð ekki velkomin – þið verðið að hætta stríðsrekstri gegn Úkraínu og hverfa á brott úr landinu fagra.”

Á sama tíma hafa ráðamenn í Berlín og París lagst gegn ferðabanni Rússa og sagt að það myndi ekki hafa tilætlaðan árangur. Þá hafa stjórnvöld í Finnlandi sagt að framtíð Schengen-samkomulagsins sé í húfi. Það gangi ekki upp að sum aðildarríkin veiti Rússum ferðaheimild á meðan önnur geri það ekki.

Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands, lýsti áhyggjum af þessum klofningi innan Evrópusambandsins. Ljóst væri að rússneskt ferðafólk myndi nú streyma í átt að finnsku landamærunum.

Það eru sem sagt enn göt á girðingunni sem aðskilur rússnesku árásarþjóðina frá vestrinu.