Fjölgun farþega skrifast aðallega á þyrluflugið

Þyrla yfir Vatnsmýrinni. MYND: ÓÐINN JÓNSSON

Það voru ríflega 42 þúsund farþegar sem flugu til og frá Reykjavíkurflugvelli í ágúst en leita þarf aftur til 2018 til að finna fjölmennari hóp flugfarþega í Vatnsmýrinni í þessum mánuði ársins. Í samanburði við ágúst í fyrra fjölgaði farþegunum um nærri tíu þúsund eða um 29 prósent.

Sú mikla aukning endurspeglast þó ekki í farþegatölum Icelandair því farþegum í innanlandsflugi félagsins fjölgaði aðeins um ríflega tvö þúsund eða um 11 prósent í ágúst.

Mesta aukningin í flugumferð til og frá höfuborginni í ágúst snéri þó ekki að áætlunarferðum heldur leiguflugi því þar fjölgaði farþegunum um 47 prósent samkvæmt svari Isavia við fyrirspurn Túrista. Þar eru meðtaldir þeir sem fljúga til höfuðborgarinnar í einkaþotum en það kemur þó fram í svari Isavia að aukninguna í leiguflugi í ágúst megi nánast alla skrifa á þyrluflug.

Og skýringuna á því er vafalítið að finna í eldgosinu sem hófst í Meradölum á Reykjanesi þann 3. ágúst því þá jókst mjög eftirspurn eftir útsýnisflugi að eldstöðvunum.

Sem fyrr segir fjölgaði farþegum í innanlandsflugi Icelandair um 11 prósent í ágúst en í heildina nýttu 23 prósent fleiri sér áætlunarferðir til og frá Reykjavíkurflugvelli í síðasta mánuði. Þar vegur Grænlandsflug Icelandair sennilega þungt enda lá það niðri síðasta sumar. En þetta gæti líka verið vísbending um að umsvin í innanlandsflugi Ernis og Norlandair hafi aukist hlutfallslega meira en hjá Icelandair.