Fjórði fjölmennasti ágústmánuðurinn

Ferðamenn í Reynisfjöru. Mynd: Óðinn Jónsson

Það voru 243 þúsund útlendingar sem innrituðu sig í flug á Keflavíkurflugvelli í ágúst en þessi talning er notuð til að leggja mat á fjölda erlendra ferðamanna. Þarna eru þó meðtaldir þegnar erlendra ríkja sem eru búsettir hér á Íslandi.

Í samanburði við ágúst 2019 var farþegahópurinn 4 prósent fámennari að þessu sinni. Samdrátturinn nam fjórðungi ef horft er til metársins árið 2018.

Sem fyrr voru Bandaríkjamenn fjölmennastir í hópi túrista hér á landi í síðasta mánuði en samtals fóru nærri 73 þúsund bandarískir farþegar í gegnum vopnaleitina í Leifsstöð. Til samanburðar flugu samtals 71 þúsund bandarískir ferðamenn frá Keflavíkurflugvelli allt árið 2011 en það var þá sem Delta flugfélagið byrjaði að fljúga hingað til lands frá New York.

Nú í sumar hélt Delta úti daglegum ferðum hingað frá tveimur bandarískum borgum og það gerði United Airlines líka. Icelandair er þó stórtækast í flugi milli Íslands og Bandaríkjanna og þotur Play fljúga á hverjum degi til þriggja borga vestanhafs. Í nýliðnum ágúst voru bandarískir túrista nokkru fleiri hér en á sama tíma fyrir þremur árum eins og sjá má hér fyrir neðan.