Flugleiðahótel hf. og Icelandair Hotels fá nýtt heiti

Vörumerki Iceland Hotel Collection by Berjaya sem áður hét Icelandairhotels og var í eigu Flugleiðahótela hf.

Þegar hið malasíska Berjaya Land Berhard keypti Icelandairhótelin var gert samkomulag við fyrri eigendur, Icelandair Group, um áframhaldandi en tímabundna notkun á vörumerkinu. En þetta næststærsta hótelfélag landsins rekur í heildina þrettán hótel í Reykjavík og á landsbyggðinni, undir nokkrum ólíkum vörumerkjum.

Og nú eru hótelin ekki lengur tengd flugfélaginu því nafni félagsins hefur verið breytt úr Flugleiðahótel hf. í Iceland Hotel Collection by Berjaya.

Í fréttatilkynningu segir að nýtt nafn sé skírskotun í safn þeirra fjölbreyttu hótelvörumerkja sem Berjaya starfrækir hérlendis, bæði þau sem eru rekin undir eigin vörumerki eða líka þau sem félagið rekur í sérleyfissamningi við Hilton Worldwide.

Nafni hótelkeðju Icelandair Hotels hefur því verið breytt í Berjaya Iceland Hotels en heiti hótela innan keðjunnar haldast óbreytt en vísa áfram í nærumhverfi og sérstöðu hvers hótels, samanber Reykjavík Natura, Reykjavík Marina, Hérað, Akureyri hótel og Mývatn hótel.

Við nýja keðju Berjaya Iceland Hotels bætist jafnframt við hótel félagsins á Höfn í Hornafirði, sem áður var rekið undir merkjum Hótel Eddu, en hefur nú verið endurbætt til að uppfylla auknar gæðakröfur í samræmi við önnur hótel Berjaya Iceland Hotels.

Önnur hótel sem heyra undir Iceland Hotel Collection by Berjaya en eru rekin í samstarfi við Hilton eru Hilton Reykjavík Nordica, Canopy by Hilton Reykjavik, Konsúlat Reykjavík Hotel – Curio Collection by Hilton og Iceland Parliament Hotel – Curio Collection by Hilton sem áformað er að opna nú í haust. Auk á hótelfélagið Alda Hotel Reykjavik og sumarhótelin Hótel Edda á Akureyri og Hótel Edda Egilsstöðum.

Iceland Hotel Collection by Berjaya starfrækir áfram sameiginlega aðalskrifstofu í Reykjavík og segir í tilkynningu að starfsfólkið þar beri ábyrgð á hámörkun samlegðar ólíkra eininga í rekstri félagsins og samstarfi við erlenda samstarfsaðila, m.a. eigendur félagsins í Kuala Lumpur í Malasíu, samstarfsaðila félagsins um sérleyfissamninga Hilton Worldwide, ásamt umsýsluaðilum að sölu hótelanna sem staðsettir eru ýmist hérlendis eða erlendis.

Önnur hótel í eigu sama aðila eru starfrækt víða um heim: í Malasíu, Japan, Sri Lanka, Víetnam, á
Seychelles eyjum, Filippseyjum og í London, Bretlandi.