Frelsi til að klæðast

Virgin Atlantic-flugfélagið leyfir körlum í flugáhöfnum framvegis að klæðast pilsum og konur buxum og tjá þannig eigin sjálfsmynd kjósi þau svo. Þá verða farseðlar framvegis gefnir út á kynhlutlausan hátt - hvorki skrifað herra né frú fyrir framan nöfn farþega.

Hönnuðurinn Vivienne Westwood með áhafnarfólki Virgin Atlantic þegar nýju búningarnir voru kynntir Mynd: Virgin Atlantic

Virgin verður fyrsta flugfélagið í Bretlandi sem hverfur frá kröfum um að kynin klæðist hefðbundnum klæðnaði við störf um borð í flugvélum – karlar í buxum, konur í pilsum. Framvegis geta karlar í flugáhöfnum, bæði flugmenn og flugþjónar, klæðst pilsi ef þeir kjósa svo – og konur buxum, segir í frétt The Telegraph. Um leið og þessi breyting er gerð, ætlar Virgin að fella niður kynbundna titla farþega: „herra“ og „frú“. Framvegis verður titillinn „Mx“ eða eitthvað álíka. 

Markaðsstjóri Virgin Atlantic, Juha Jarvinen, segir að flugfélagið vilji að starfsfólk þess fagni eigin sjálfsmynd og njóti sín eins og það er í störfum sínum. „Við viljum að fólkið okkar velji þann búning sem því þykir best passa sér sjálfu og eigin sjálfsmynd. Um leið viljum við tryggja að farþegar séu ávarpaðir á ókynbundinn hátt.” Á síðasta ári hætti British Airways að ávarpa farþega með titlunum „herrar” mínir og „frúr.”

The Telegraph segir réttilega að flugfélög séu smám saman að hverfa frá ströngum reglum um klæðaburð, hæð og aldur, um sýnileika húðflúrs og annað útlitstengt. Íslendingar hafa t.d. tekið eftir því að allar flugáhafnir Play klæðast buxum um borð. Enn hefur þó ekki sést til flugmanns í pilsi hjá Play. 

Nýir búningar áhafna Virgin Atlantic eru hannaðir af breska hönnuðinum Vivienne Westwood.