Herferðir Íslandsstofu verðlaunaðar

Jörundur Ragnarsson í hlutverki sínu í Icelandverse auglýsingunni. MYND: INSPIRED BY ICELAND

Það var sumarið 2021, rúmu ári eftir að Covid-19 faraldurinn hófst, sem Íslandsstofa hleypti af stokkunum herferðinni Sweatpant Boost. En þar var fólki boðið að breyta joggingbuxum, einkennisklæðnaði heimsfaraldursins, í almennilega gönguskó sem nýta mætti í Íslandsreisu.

Viðtökurnar voru það góðar að rétt um sólarhring eftir að herferðin hófst þá voru allir tímar í umbreytingu á joggingbuxunum uppbókaðir. Þetta framtak vakti mikla athygli og til marks um það þá er Sweatpant Boost herferðin sigurvegari sérstakra markaðsverðlauna á vegum ferðaritsins Skift sem afhent verða í New York í næstu viku.

Og fulltrúar Íslandsstofu verða þá kallaðir tvisvar upp á svið því Icelandverse auglýsing Íslandsstofu, þar sem góðlátlegt grín var gert af stofnanda Facebook, þykir einnig skara framúr að mati dómnefndar Skift.

Þess má geta að umbreyting á vefnum VisitIceland.com sem Ferðamálastofa og Íslandsstofa standa að fékk einnig viðurkenningu hjá Skift fyrr á þessu ári.