Samfélagsmiðlar

Hitnar í kolunum

Bresk ferðaskrifstofa veðjar á að kostnaðarvitund þeirra sem hræðast spár um hrikalega orkureikninga í vetur beini þeim í hlýindi á suðlægum slóðum

Vetrarferðalangar leggja að á La Gomera á Kanaríeyjum

Breska ferðaskrifstofan TravelTime World hóf á dögunum nýja markaðsherferð með tvíræðri yfirskrift: The Heat is On. Þrátt fyrir orkukreppuna má njóta yls í heitu löndunum og svo er í þessu óeiginleg merking: „það hitnar í kolunum” eða „nú færist fjör í leikinn.” Þetta auglýsingaskrúð er kannski ekki sérlega smekklegt á þessum óvissutímum. Árásarstríð Rússa á hendur Úkraínumönnum hefur leitt til orkukreppu í Evrópu. Það blasir við að veturinn verði mörgum erfiður, kaldur og kostnaðarsamur.

Skjáskot af vefsíðu TravelTime World

Í kynningartexta þessarar herferðar bresku ferðaskrifstofunnar er hugsanlegur viðskiptavinur hvattur til að hugleiða hvort hann eigi ekki skilið að hlýja sér í sólinni í vetur eftir að hafa þolað tveggja ára heimsfaraldur og eiga nú fyrir höndum að borga himinháa orkureikninga til að þrauka breska kuldatíð. Bent er á að reikningar fyrir gas og rafmagn eigi eftir að hækka sexfalt í komandi orkukreppu. Tölur sem nefndar eru ekki áreiðanlegar, aðeins byggðar á spádómum, en ekki er ólíklegt að ársreikningar meðal heimilis í Bretlandi fyrir orkunotkun fari vel yfir sem svarar 1,1 milljón íslenskra króna.

Þá færi nú betur um fólk ef það flygi burt úr nepjunni og illa kyntum híbýlum Bretlandseyja til Möltu á ylvolgu Miðjarðarhafi, Suður-Spánar eða Portúgals, segir breska ferðaskrifstofuliðið. Það ætti að koma út á nokkurn veginn jöfnu að borga fyrir flug þangað suðureftir og gistingu þar eins og það kostar að halda á sér yl og njóta sæmilegrar birtu í íbúðinni heima í Bretlandi. Bent er á það í veffréttum frönsku sjónvarpsstöðvarinnar Euronews, sem er með höfuðstöðvar í Lyon, að enn hlýrri staðir eins og Kanaríeyjar séu hinsvegar dýrari.

Baðströnd í Portúgal – Mynd: ÓJ

Íslendingar ætla einmitt að þyrpast þúsundum saman fyrir jólin til Kanaríeyja, eins og Túristi hefur sagt frá. Fyrir jólin býður Icelandair upp á allt að þrjár brottfarir á dag til Tenerife. Samtals verða ferðir Icelandair til Tenerife 20 á tímabilinu 13. til 23. desember. Play gerir ráð fyrir sex ferðum þangað fyrir jólin, Ferðaskrifstofa Íslands, sem rekur m.a. Heimsferðir og Úrval-Útsýn, býður upp á fjórar ferðir og Niceair ætlar að fara í tvær ferðir frá höfuðstað Norðurlands til Tenerife. Í heildina verða ferðirnar því 32 talsins.

Íslendingurinn er hinsvegar ekki að flýja undan háum orkureikningi heldur myrkri og kuldatíð – og til að verðlauna sig eftir heldur svalt og sólarlítið sumar. Lágir orkureikningar á Íslandi eru meðal þess sem gerir meðaltekjufólki einmitt kleift að kaupa vetrarferð á hlýrri slóðir. Euronews hefur eftir Ashley Quint, ferðaskipuleggjanda hjá TravelTime World, að ef fólk kaupi miða í langflug, sem nú eru dýrir, verði það að fara til langrar dvalar – láta lágan kostnað af uppihaldi vega upp á móti dýrum fargjöldunum. Þetta geti t.d. átt við ferðir til Tælands. 

En ætli það sé líklegt að Bretar eða aðrir Norður-Evrópubúar hópist í vetur til fjarlægra og hlýrri landa á flótta undan orkureikningum heima fyrir? Ekki er hægt að skrúfa alveg fyrir hitann án þess að eiga á hættu skemmdir á húsnæðinu fyrr eða síðar. Þá fer því auðvitað fjarri að allir eigi kost á því að láta sig hverfa til annars lands eða ráði við að greiða út í hönd fyrir flugmiða og gistingu til langs tíma. Euronews veltir fyrir sér hvort þetta gæti þó helst átt við eldri borgara og vaxandi hóp fólks sem stundar fjarvinnu. Það gæti verið freistandi fyrir það fólk að forða sér í sólina með tölvuna og símann í lengri tíma en venjulega.

En hvað sem um þetta framtak bresku ferðaskrifstofunnar má segja þá geta Bretar og aðrir Norður-Evrópubúar ekki flúið afleiðingar orkuverðskrísunnar með því einfaldlega að skella sér í sólarlandaferð.

Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …