Samfélagsmiðlar

Hlutabréfin í Icelandair ofan í „skúffu í skattaparadís“

Hlutabréf langstærsta hluthafans í Icelandair eru skráð á írskt félag með enga eiginlega starfsemi. Formaður bankaráðs Seðlabankans segir aðspurður að mikilvægt sé að loka fyrir glufur sem skattaskúffur búa til.

Hlutur stærsta hluthafa Icelandair jafnast á við eign níu stærstu lífeyrissjóðanna á hluthafalista flugfélagsins.

Botninn datt úr rekstri flugfélaga þegar Covid-19 breiddist út um heiminn í ársbyrjun 2020. Í framhaldinu fengu þau flest einhverskonar ríkisstuðning enda fóru fá flugfélög á hausinn í heimsfaraldriunum þrátt fyrir gríðarlegt tekjutap.

Í sumum tilvikum keypti hið opinbera hlutabréf í flugfélögunum og sú leið var til að mynda farin í Þýskalandi. Þar eignaðist þýska ríkið fimmtung í Lufthansa samsteypunni sem seldur hefur verið í pörtum síðustu misseri. Í vikunni losuðu Þjóðverjar sig við síðustu bréfin í flugfélaginu og samkvæmt frétt Financial Times hagnaðist þýska ríkið um 760 milljónir evra eða um 106 milljarða króna á viðskiptunum með bréfin í Lufthansa.

Hér heima var opinber stuðningur við Icelandair meðal annars fólgin í almennum aðgerðum sem þó voru að hluta til sniðnar að þörfum flugfélagsins. Einnig samþykkti Alþingi, í september 2020, að ríkið myndi ábyrgjast 90 prósent af 16,4 milljarða kr. láni sem Íslandsbanki og Landsbanki voru tilbúnir til að veita. Ábyrgð ríkisins hefði þá numið um 15 milljörðum kr.

Ekkert varð af þessari lántöku sem skrifast líklega að miklu leyti á aðkomu bandaríska lánasjóðsins Bain Capital Credit í júní 2021. Sjóðurinn keypti þá nærri 17 prósent hlut í Icelandair en um var að ræða nýtt hlutafé. Þar með lækkaði eignarhlutur annarra fjárfesta, meðal annars þeirra sem tóku þátt í hlutafjárútboði flugfélagsins níu mánuðum áður. Bain Capital Credit greiddi 8,1 milljarð króna fyrir nýju bréfin og varð langstærsti hluthafinn.

Lánasjóðurinn er þó ekki skráður fyrir fjárfestingunni í eigin nafni heldur írskt félag sem heitir Blue Issuer DAC en það var stofnað 26. apríl 2021, tveimur mánuðum fyrir kaupin í Icelandair.

Í kauphallartilkynningum Icelandair, þar sem vísað er til langstærsta hluthafans, er því ekki talað um Bain Capital Credit heldur Blue Issuer DAC. Á hluthafalista flugfélagsins trónir þetta írska félag á toppnum en í næstu sætum eru íslenskir lífeyrissjóðir og bankar.

Stærsti hluthafinn í Icelandair, sem skilgreint hefur verið sem þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki, er því írskt félag með enga eiginlega starfsemi. Spurður út í þetta fyrirkomulag þá segir Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans og prófessor við Háskóla Íslands, að tilgangurinn sé að lágmarka skattgreiðslur.

„Það kemur ekki á óvart að þessi eignarhlutur sé geymdur í skúffu í skattaparadís. Það er auðvitað gert til að greiða sem minnst í sameiginlega sjóði. Það er væntanlega fyllilega löglegt en sýnir bara mikilvægi þess að loka almennt fyrir þær glufur sem skattaskúffur búa til á skattkerfum. Það er hins vegar almennt viðfangsefni en ekki sérstakt vegna Icelandair,“ segir Gylfi í svari til Túrista.

Talsmaður Bain Capital Credit sagði í svari við Túrista í fyrra að það væri ekki óalgengt að sjóðurinn fjárfesti í gegnum einingar utan Bandaríkjanna líkt og gert var í tilviki Icelandair.

Túristi hefur á ný reynt að fá útskýringar frá bandaríska lánasjóðnum á þessu írska eignarhaldi en nú fást engin svör. Til að mynda við spurningunni afhverju ekki var fjárfest í Icelandair í gegnum íslenskt félag.

Ef hlutabréf Bain Capital Credit væru skráð hér á landi þá fengi íslenska ríkið umtalsverða skattgreiðslu ef bréfin yrðu seld í dag. Markaðsvirði þeirra er 13,8 milljarðar króna en samtals hefur bandaríski lánasjóðurinn fjárfest 10,4 milljörðum kr. í Icelandair. Fyrst voru það 8,1 milljarðar kr. sumarið 2021 en í júlí sl. bættust við 2,3 milljarðar þegar Bain Capital Credit nýtti rétt sinn á kaupum á viðbótar hlutafé.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …