Hvorki Icelandair né Play á lista yfir þau 100 bestu

Aldrei komst Wow Air á listann og Icelandair hefur farið nokkuð hratt niður á við síðustu ár.

Mr. Akbar Al Baker, stjórnarformaður Qatar Airways, tók við verðlaununum fyrir helgi. Mynd: Skytrax

Árlegur listi World Travel Awards yfir 100 bestu flugfélög heims var birtur í lok síðustu viku og sem fyrr ratar niðurstöðurnar í viðskipta- og ferðapressuna út í heimi. Stjórnendur flugfélaganna sem komast ofarlega á blað gera líka töluvert úr viðurkenningunni en listinn byggir aðallega á umsögnum flugfarþega.

Í ár var það Qatar Airways sem hneppti fyrsta sætið og er þetta í sjöunda skiptið sem flugfélagið ber sigur úr býtum. Í öðru sæti var Singapore Airlines og Emirates í því þriðja. Af þeim flugfélögum sem fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli kom British Airways best út en félagið var í 11. sæti á lista ársins.

Hvorki Icelandair né Play komust á blað að þessu sinni og er þetta annað skiptið í röð sem Icelandair er ekki á lista yfir 100 bestu flugfélög heims hjá World Travel Awards. En félagið hefur farið nokkuð hratt niður listann árin á undan eins og sjá má hér fyrir neðan. Þess má geta að Wow Air náði aldrei inn á listann á sínum tíma.

Sætin sem Icelandair hefur vermt síðustu ár á lista World Travel Awards yfir 100 bestu flugfélögin:

2019: 100. sæti
2018: 87. sæti
2017: 82. sæti
2016: 81. sæti
2015: 81. sæti
2014: 81. sæti
2013: 73. sæti
2012: 88. sæti