Icelandair og Air Greenland tengja saman leiðakerfi félaganna

Á Vestnorden-ferðaráðstefnunni í kvöld var undirrituð viljayfirlýsing Icelandair og Air Greenland um aukið samstarf. Tengja á saman leiðakerfi félaganna tveggja.

Icelandair hefur flutt hluta af Grænlandsflugi sínu frá Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkur, þar sem aðstaða er öll betri og tækifæri gefast á alþjóðlegum flugtengingum. Það eru einmitt þær sem Air Greenland sér fyrir sér að geta nýtt fyrir farþega sína. Í fréttatilkynningu um viljayfirlýsingu félaganna tveggja um samstarf fagna forstjórar félaganna samkomulaginu. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir: „Með betri tengingum við umfangsmikið leiðakerfi Air Greenland innan Grænlands og til Keflavíkurflugvallar munum við geta boðið þægilegar tengingar á milli áfangastaða á Grænlandi til fjölda áfangastaða okkar í Evrópu og Norður-Ameríku.“ Forstjóri Air Greenland, Jacob Nitter Sørensen, tekur í sama streng og ræðir tækifærin sem samstarfið býður upp á fyrir báða aðila: „Leiðakerfi Icelandair frá Keflavíkurflugvelli er mjög öflugt og munu tengingar við það auðvelda ferðalög frá Grænlandi til fjölda áfangastaða erlendis og skapa um leið betri tækifæri fyrir fólk til að ferðast til Grænlands. Að auki munu ferðamenn til Íslands eiga auðveldara með að heimsækja Grænland. Aukið samstarf mun einnig þýða að viðskiptavinir okkar munu geta bókað flug alla leið á áfangastaði Icelandair í gegnum vef okkar.“

Fulltrúar Air Greenland og Icelandair eftir undirritun viljayfirlýsingarinnar. Frá vinstri: Tomas Leth Jørgensen, Air Greenland, Tómas Ingason, Icelandair, Jacob Nitter Sørensen, forstjóri Air Greenland, Helgi Már Björgvinsson, Icelandair og Mogens E. Jensen, Air Greenland.

Air Greenland var stofnað af SAS-flugfélaginu og námafyrirtækinu Øresund árið 1960 og bar nafnið Grønlandsfly til ársins 2002. Nú er félagið að fullu í eigu Grænlendinga sjálfra eftir að SAS og danska ríkið sömdu árið 2019 við grænlensku heimastjórnina um sölu á hlutafé félagsins.