Ítalir hafa streymt til Íslands

Í ágúst voru Ítalír þriðja fjölmennasta þjóðin í hópi erlendra ferðamanna.

Túristar í miðborginni. MYND: ÓÐINN JÓNSSON

Það er ekkert nýtt að Ítalir fjölmenni hingað í lok sumars en þeir voru þó óvenju margir hér á landi í nýliðnum ágúst. Þá fóru 18.700 ítalskir farþegar í gegnum vopnaleitina í Leifsstöð en talningin þar hefur lengi verið notuð til að meta fjölda erlendra ferðamanna.

Þetta er miklu stærri hópur Ítala en á sama tíma á árunum fyrir heimsfaraldur eins og sjá má hér fyrir neðan. Í júní til ágúst voru ítölsku brottfararfarþegarnir 33 þúsund á Keflavíkurflugvelli en rétt um 22 þúsund yfir sumarmánuðina árin 2018 og 2019.

Megin skýringin á þessari miklu breytingu liggur líklegast í mun tíðari flugferðum milli Íslands og Ítalíu. Áður takmarkaðist beina flugið milli landanna tveggja við áætlunarferðir Icelandair og Wow Air til Mílanó. Meira var það ekki.

Nú í sumar hefur hins vegar verið hægt að fljúga beint til Íslands frá Róm, Mílanó, Verona, Feneyjum, Bologna og Napólí á vegum fimm mismunandi flugfélaga og ferðaskrifstofa. Í vetur verður framboðið mun minna en þó töluvert en áður var. Bæði Easyjet og Wizz Air ætla að fljúga þotum sínum hingað frá Mílanó og það síðarnefnda mun jafnframt halda úti Íslandsflugi frá Róm.