Japanar opna landið fyrir ferðafólki

Forsætisráðherra Japans, Fumio Kishida, tilkynnti í gær að ströngum takmörkunum á komum ferðafólks til landsins yrði aflétt 11. október. Að undanförnu hefur aðeins skipulögðum ferðahópum verið hleypt inn í landið og það með ströngum skilyrðum.

Mannþröng í Taitō-hverfi í Tókýó fyrir heimsfaraldur Mynd: Óðinn Jónsson

Japönsk ferðaþjónusta hefur átt erfitt frá því Covid-19-faraldurinn hófst. Nánast engir túristar hafa verið sjáanlegir í landinu og hefur margt heimafólkið raunar fagnað því – sérstaklega eldri borgarar sem eru á varðbergi gagnvart útlendingum.

Nú er breyting framundan. Japanski forsætisráðherrann Fumio Kishida er staddur í New York á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna en gaf sér tíma í gær til að boða til fréttamannafundar í borginni og tilkynna um tillslakanir á þeim takmörkunum sem gilt hafa. Meginbreytingin er sú að frá 11. október næstkomandi verður einstaklingum heimil landganga, ekki aðeins þeim sem ferðast í skipulögðum hópum. Þá verða felldar á brott allar takmarkanir sem gilt hafa síðustu mánuði um þann fjölda sem má koma til landsins. Kröfur um vegabréfsáritun sem gilt hafa frá því heimsfaraldurinn hófst falla jafnframt niður. 

Eftir meira en tveggja ára lokun var erlent ferðafólk boðið velkomið að nýju í júní síðastliðinn en með svo miklum takmörkunum og skilyrðum að fáir létu drauminn um Japansferð rætast, eins og Túristi hefur greint frá.

Nú virðast bjartari tímar framundan í japanskri ferðaþjónustu. AP-fréttastofan hafði eftir japanska forsætisráðherranum að blásið yrði til markaðsátaks til að blása nýju lífi í ferðaþjónustuna í landinu og hagstæð ferðakjör yrðu í boði.