Keflavíkurflugvöllur opinn á ný en TF-FIK áfram á Heathrow

Allri umferð var beint frá Keflavíkurflugvelli seint í gærkvöld vegna sprengjuhótunar um borð í þotu bandaríska flutningafélagsins UPS sem var á leið til Bandaríkjanna. Þotunni var lent á Keflavíkurflugvelli um miðnætti en engin sprengja hefur fundist í vélinni samkvæmt frétt RÚV og flugvöllurinn því opinn á nýjan leik.

Þær farþegaþotur sem snúa varð frá Keflavíkurflugvelli í gærkvöld, vegna sprengjuhótunarinnar, komast því á leiðarenda. Þannig lenti vél Play fyrir stundu en sú var á leið til Íslands frá Madríd en þurfti að bíða á Akureyri í nótt. Sömu sögu er að segja af flugvélum Transavia og Wizz Air sem fóru til Egilsstaða í gærkvöld og einnig eru farþegar Play, sem voru á leið hingað frá Barcelona, væntanlegir til Keflavíkur eftir að hafa dvalið í Glasgow í nótt.

Sprengjuhótunin í farþegaþotu UPS er ekki eina atvikið sem setti flugumferð, til og frá landinu, úr skorðum í gærkvöld því þota Icelandair, TF-FIK, komst ekki í loftið frá Heathrow flugvelli í gærkvöld eftir árekstur við þotu Korean Air. Annar vængur þeirrar síðarnefndu mun hafa rekist utan í TF-FIK með þeim afleiðingum að stélið skemmdist á þessari 22 ára gömlu Boeing 757 þotu.

Farþegar Icelandair komust því ekki til landsins í gærkvöld en næsta brottför félagsins frá Heathrow er á dagskrá um hádegisbilið í dag. British Airways býður reyndar upp á ferð frá Heathrow til Keflavíkurflugvallar rétt fyrir klukkan átta að breskum tíma.