Samfélagsmiðlar

Kyoto opnar faðminn en biður um meiri nærgætni

Nú þegar Kyoto býr sig undir endurkomu ferðafólksins leita yfirvöld ferðamála leiða til að forðast vandræðin sem borgin hafði ratað í fyrir heimsfaraldur með troðningi á fáum stöðum. Leitað er leiða til að lokka ferðafólkið á fleiri merkilega staði í og við borgina. Japan opnast almennu ferðafólki 11. október næstkomandi.

Piltur og stúlka í Kyoto

Mikill átroðningur ferðafólks er auðvitað lýjandi fyrir íbúa þeirra staða sem fyrir honum verða. Þetta þekkja Kytotobúar vel, ekki síst þau sem selja mat á Nishiki-markaðnum og þurfa að koma honum fyrir á aðlaðandi hátt á hverjum morgni. Markaðurinn þjónaði íbúum einum lengst af eða þar til að borgin dró til sín stríðan straum ferðafólks sem vildi handleika og ljósmynda litskrúðugan varninginn á markaðnum og hindruðu ferðir gömlu viðskiptavinanna með farangri sínum. Auðvitað leiddi þetta til þess að heimsóknum íbúanna sjálfra tók að fækka. Þeir fengu ekki næði til að sinna hefðbundnum viðskiptum sínum á markaðnum.

En svo kom Covid-19. Túristarnir hurfu og peningarnir þeirra með. „Það rann upp yrir okkur að við getum ekki valið viðskiptavini okkar,” er haft eftir herra Hatsuda sem selur kamaboko-fiskbuff á markaðnum. Hann er meðal viðmælenda Hisako Ueno og Ben Dooley, sem rita grein á ferðasíðu The New York Times um viðhorf Kyotobúa til túristanna, sem þeir vilja fá aftur – en óska þess pent að sýni íbúum aðeins meiri nærgætni en áður. 

Ferðamannaþröng nærri Kodai-ji-hofinu – Mynd: ÓJ

Aðeins Kína hefur fylgt strangari landamærareglum en Japan. Frá byrjun árs 2021 hafa innan við 800 þúsund ferðamenn komið til Japans. Á sama tíma og flestar aðrar þjóðir slökuðu á sínum reglum létu Japanar duga að hleypa aðeins örfáum ferðamönnum inn í landið, aðallega í skipulögðum hópferðum og með takmörkunum sem lutu að vegabréfsáritunum og sóttkví. Eins Túristi hefur greint frá breytist þetta 11.október þegar fjöldatakmörkunum um landvist útlendinga verður aflétt og leyfðar verða að nýju heimsóknir einstaklinga. En jafnvel þó að takmörkunum verði aflétt er þess ekki að vænta að ferðamannastraumurinn verði álíka og fyrir heimsfaraldurinn vegna fjarveru Kínverja sem töldust um þriðjungur ferðamanna í Japan. Strangar takmarkanir gilda enn um ferðalög Kínverja til útlanda vegna Covid-19.  

Kodai-ji-hofið í Kyoto – Mynd: ÓJ

Aftur að viðhorfum fólks í Kyoto sem býr sig nú undir að taka á móti ferðafólki. Í þessari fornu höfuðborg Japans hefur á síðustu árum verið fylgt þeirri stefnu að sýna útlendingunum gestrisni og þolinmæði en nú vilja íbúar huga betur að eigin velferð og líðan. The New York Times hefur eftir borgarstjóra Kyoto, Daisaku Kadokawa, að Kyoto væri ekki túristaborg heldur borg sem mæti túrisma mikils. Kurteislegt og margrætt svar, eins og vænta mátti af japönskum herramanni. 

Músík fyrir túrista – Mynd: ÓJ

Kyoto hefur af mörgu að státa auk sögulegra minja og ómótstæðilegrar fegurðar. Engin borg í Japan hefur fætt af sér fleiri Nóbelsverðlaunahafa í vísindum og þar eru heimsþekkt fyrirtæki eins og tölvuleikjaframleiðandinn Nintendo. Hinsvegar var það ferðamannastraumurinn stríði sem einkenndi borgina árin fram að heimsfaraldri. Ferðafólkið bókstaflega fyllti margar áhugaverðustu götur borgarinnar frá morgni til kvölds. Nóg er að skoða. Meira en tvöþúsund hof og helgistaðir eru í Kyoto. Hópar skólafólks og ferðamenn hvaðanæfa úr heiminum vilja sjá þessar minjar um sögu Japans sem sluppu við eyðileggingu síðari heimsstyrjaldar. 

Stúdentar stilla sér upp fyrir myndatöku og prúðbúnir borgarar ganga hjá – Mynd: ÓJ

Kyoto laðar ekki til sín fólk sem vill djamma og leika sér heldur þá sem upplifa vilja ákveðna ímynd af þessu merka landi, Japan, í ægifögrum og mögnuðum görðum borgarinnar sem sýnd er mikil ræktarsemi og alúð, dást að fornum framhliðum verslana og sjá uppábúnar geisjur trítla á viðarskóm sínum um hellulagða stíga fornborgarinnar. Öllu þessu var þó ógnað í ferðamannafárinu fram að heimsfaraldri. 

Japanar höfðu á árunum fram að heimsfaraldri lagt sig fram um að fjölga komum ferðamanna. Árið 2013 komu um 10 milljónir erlendra ferðamanna til Japans en sá fjöldi hafði meira en þrefaldast áður en Covid-19 breytti öllu. Þriðjungur allra sem komu til landsins heimsótti Kyoto og fimmtungur vinnuaflsins starfaði í ferðaþjónustutengdum greinum. Um 13 prósent af skatttekjum borgarinnar mátti rekja til ferðaþjónustu. En fjöldatúrisminn reyndi verulega á þolgæði íbúa Kyoto, sem fóru að tala um túrismann sem óværu. Erfitt var að koma sér fyrir í almenningsvögnum vegna þess að töskur ferðamanna þvældust fyrir, geisjurnar komust ekki óáreittar leiðar sinnar án þess að lenda fyrir framan myndavélar túristanna og íbúar urðu fyrir því að rammvilltir túristar komu inn fyrir þröskuldinn heima hjá þeim í leit að Airbnb-íbúð. Samfélagsmiðlarnir mótuðu ferðamennskuna í Kyoto – og ekki til góðs. 

Leiðsögumaður sem fer með enskumælandi hópa um Kyoto segir að fyrir heimsfaraldur hafi ferðaáætlun flestra einungis mótast af Instagram – því sem er grammískt (grammable), kemur vel út á Instagram. Ferðalög æ fleiri mótast af frægð staða á Instagram og öðrum samfélagsmiðlum. Dæmigerður túristi fer nú rakleiðis frá aðalbrautarstöðinni í Kyoto og beinustu leið að einhverjum þeirra tveggja eða þriggja staða í borginni sem best taka sig út á mynd. Fyrir vikið skapast umferðaröngþveiti á þessum stöðum. 

Shinkansen-hraðlestinn á aðalbrautarstöðinni í Shimogyo-ku í Kyoto – Mynd: ÓJ

Kyotobúar, sem nafntogaðir eru fyrir kurteisi og umburðarlyndi, fóru í auknum mæli að láta í ljós óánægju sína með ýmsum hætti. Jafnvel búddamunkar misstu kúlið, ef svo má segja um þessa vönduðu og lítillátu menn sem ganga á guðsvegum. Greinarhöfundar The New York Times hafa eftir talsmanni samtaka búddista í Kyoto, Kojo Nagasawa, að átroðningur túrista hafi verið orðinn óbærilegur, íbúar hafi vart komist út úr húsum sínum. Samtök búddista í Kyoto hafa raunar lengi hvatt til hófsamari efnahagsvaxtar og lýstu á sínum tíma andstöðu við byggingu hótelturna í borginni, sem þau sögðu að myndi spilla ásýnd hennar og séreinkennum. „En fyrr en varði snérist efnahagslífið aðeins um túrismann. Borgin þekkti ekki eigin mörk,” segir Nagasawa dálítið sorgmæddur yfir sigrum efnishyggjunnar í landi sínu. Borgaryfirvöd brugðust við hörðustu gagnrýninni árið 2018 og stöðvuðu fyrirætlanir fjárfesta um að breyta hefðbundnu íbúðahúsnæði í grónum borgarhverfum í Airbnb-íbúðir. 

Grafreitur – Mynd: ÓJ

Svo kom Covid-19. Japanar lokuðu landamærum sínum vorið 2020 og þá um leið fyrir fjárstreymið til Kyoto úr þeirri áttinni. Borgin hafði lengi átt í fjárhagslegu basli en rambaði nú á barmi gjaldþrots. Borgarbúar fengu að kynnast því hvernig var að lifa án túristanna. „Kórónaveiran og hallareksturinn voru að samanlögðu þungt högg fyrir borgina,” segir Kadokawa, borgarstjóri. Yfirmaður ferðamála í borginni, Toshinori Tsuchihashi, bætir því við að í fyrstu hafi íbúar fagnar því að hafa endurheimt borgina sína en þegar efnhagsvandræðin hlóðust upp hafi fólk orðið að viðurkenna mikilvægi ferðaþjónustunnar. 

Gömul og virðuleg hús – Mynd: ÓJ

Nú þegar Kyoto býr sig undir endurkomu ferðafólksins leita yfirvöld ferðamála leiða til að forðast vandræðin sem borgin hafði ratað í fyrir heimsfaraldur með troðningi á fáum stöðum. Leitað er leiða til að lokka ferðafólkið á fleiri merka staði í og við borgina. Ekki er þó mögulegt innan ramma laga og reglna að afmarka eða loka vinsælum svæðum í borginni fyrir almennu ferðafólki. Aftur á móti má freista þess að dreifa umferð betur yfir daginn, fjölga almenningsvögnum – og beina vinsamlegum tilmælum til gesta um að virða venjur og siði sem gildi í borginni góðu. 

Horft yfir borgina – Mynd: ÓJ

Í stað banna og viðvarana er fyrirhugað að biðja ferðafólk vinsamlegast um að gera, eða gera ekki, þetta og hitt. Þetta á við um áðurnefndan Nishiki-markað, sem ætlar að setja upp QR-kóða þar sem ferðafólk getur sótt ábendingar um hvernig heimsóknar á markaðinn verður best notið. Þessu fylgir frjáls netaðgangur. Segja má að í gangi sé heildarendurskoðun á því hvernig ferðaþjónusta í borginni verður byggð upp – til að bæta upplifun ferðafólksins og sjálfra íbúanna um leið.

Einn vinsælasti áfangastaður ferðafólks sem kemur til Kyoto er Kiyomizu-hofið, sem frægt er fyrir magnaða húsagerðarlist og frábært útsýni yfir borgina. Þessi merka stofnun er nú meðal þeirra sem hafa forystu um að breyta viðhorfi ferðafólks á þann veg að það líti á Kyoto sem dvalarstað fólks en ekki sem einn allsherjar skemmtigarð. Mikill troðningur fólks er í kringum hofið og verður það ábyggilega áfram og svipaða sögu er að segja af Kodai-ji-hofinu og hverfinu þar um kring. Japanskir skólahópar eru og verða áberandi, auk innlendra og erlendra ferðamanna. Heimafólkið sjálft kemst vart að í troðningnum. Nú á að leita nýrra leiða til að jafna álagið, t.d. með því að taka á móti litlum hópum gesta að næturlagi og leiða þá í gegnum bænir og samræður. Jafnvel útlendingum verður boðið. Það hlýtur að vera mögnuð upplifun að vera í Kiyomizu-hofinu í næturkyrrðinni og njóta ilmsins frá brennandi ilmjurtum í loftinu og flöktandi birtunnar á þessum magnaða stað.  

Ferðamálayfirvöld í Kyoto vonast eftir að endurheimta ferðafólkið til sín hægt og bítandi. Það mun koma sér vel hversu margir höfðu verið þjálfaðir til að taka á móti enskumælandi gestum Ólympíuleikanna sem svo komu aldrei. En vonandi verður Kyotobúum að ósk sinni um meiri sjálfsprottna tillitssemi og kurteisi af hálfu erlendu túristanna. Kyoto á allt gott skilið. 

Litadýrð í nóvember – Mynd: ÓJ
Nýtt efni

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …