Mun leiða Gray Line Worldwide

Guðrún Þórisdóttir er ný forseti Gray Line Worldwide. Mynd: Gray Line

Guðrún Þórisdóttir, sölu- og markaðsstjóri Gray Line á Íslandi, hefur verið ráðin í starf forseta Gray Line Worldwide, sem eru elstu og stærstu samtök fyrirtækja í skoðunarferðum í heiminum. Sem forseti GLW mun Guðrún leiða stefnumörkun samtakanna, vera talsmaður þeirra og annast samskipti við leyfishafa um allan heim að því segir í tilkynningu.

Þar kemur jafnframt fram að Guðrún hafi verið kosin í stjórn Gray Line Worldwide árið 2013 og setið þar síðan. Samtökin voru stofnuð 1910 og standa að þeim tæplega eitt hundrað fyrirtæki í skoðunarferðum víða um heim.

„Vissuleg er heiður fyrir mig og viðurkenning að hafa verið ráðin í þetta mikilvæga starf. En ekki síður er það viðurkenning fyrir Gray Line á Íslandi, sem hefur verið leiðandi í nýsköpun í skoðunarferðum og miðlað þekkingu til samstarfsfyrirtækjanna. Ég efa heldur ekki að þau samskipti sem framundan eru við fjölda hagaðila út um allan heim styrki tengslin við íslenska ferðaþjónustu. 

Ég hlakka mikið til þess sem er framundan, enda veit ég ekkert skemmtilegra en að ferðast, skoða mig um og kynnast nýrri menningu. Á hverjum stað sem ég heimsæki reyni ég að komast í skoðunarferðir, því mér finnst það vera besta leiðin til að upplifa áfangastaði,“ segir Guðrún í tilkynningu.