Munurinn á jólaflugi Icelandair og Play til Tenerife

Kvöldsólin í Adeje Mynd: ÓJ

Stjórnendur Icelandair og Play vonast til að fljúga mun fleiri Íslendingum til Tenerife fyrir þessi jól en þau síðustu. Þotum Icelandair verður til að mynda flogið tuttugu sinnum til spænsku eyjunnar dagana fyrir jól og Play stefnir á sex brottfarir. Frá Akureyri mun Niceair fara þangað í þrígang vikuna fyrir aðfangadag en uppselt er í allar þær ferðir.

Til viðbótar býður Ferðaskrifstofa Íslands, sem rekur m.a. Heimsferðir og Úrval-Útsýn, upp á sitt flug til Tenerife fyrir jólin en þar á bæ er einblínt á að selja fólki bæði flug og hótel í einum pakka.

Áramót á Tenerife – Mynd: ÓJ

Flugfélögin horfa aftur á móti aðeins til flugsætanna og eins og sjá má hér fyrir neðan þá getur munað töluverðu á fargjöldunum hjá Icelandair og Play. Það fyrrnefnda er oftast dýrari kostur en hafa verður í huga að þeir sem fljúga með Play verða að borga aukalega fyrir venjulega handfarangurstösku.

Það skal einnig tekið fram að fargjöldin hér fyrir neðan eru eingöngu fyrir flug frá Íslandi og er það gert til að gera verðsamanburðinn einfaldari. Úrval af heimferðum frá Tenerife eftir jól eru nefnilega ekki eins mikið en dvalartíminn úti ræður miklu um hvað flugmiðinn, báðar leiðir, kostar.