Allir ættu að komast til Frakklands ef hugurinn leitar þangað. París er auðvitað stórkostleg en hún er ekki Frakkland. Innan seilingar frá heimsborginni fögru eru slóðir sem sannarlega er vert að heimsækja. Normandi er eitt þeirra héraða sem áhugavert er að kynnast. Það tekur aðeins rétt rúmar tvær klukkustundir að fara með lest frá Saint-Lazare-stöðinni í 8. hverfi Parísar til Caen, höfuðstaðar Calvados-héraðs í norðanverðu Normandí, og kostar ferðin aðra leið 40,70 evrur fyrir fullorðinn á öðru farrými.

Frá Caen eru aðeins um 15 kílómetrar niður að Ermarsundi og stutt að lendingarstöðum herja Bandamanna í síðari heimssyrjöldinni og til Bayeux, þar sem varðveittur er refillinn góði sem lýsir orrustunni í Hastings árið 1066 og hvernig Normannar undir forystu Vilhjálms sigursæla hernámu England. Atburðir sem mörkuðu þáttaskil í sögu Englands og sem um leið hafa skapað sterk tengsl yfir Ermarsund, tengsl sem endurnýjuðust eftir að Bandamenn höfðu hrakið Þjóðverja á brott í júní 1944.

Það eru einmitt uppgjafarhermenn og afkomendur þeirra, auk mikils fjölda áhugamanna um styrjaldarsöguna sem þyrpast ár hvert til Normandí til að vitja minninga og upplifunar á þessum dramatísku lendingarstöðum á ströndum Normandí, sérstaklega á Omaha Beach. Nú eru fáir eftir af þeim hermönnum sem ungir voru þáttakendur í innrásinni 6. júní 1944 og búast má við að á næstu áratugum dragi úr sókn stríðssögu-ferðamanna til Normandí. Á meðan heimsfaraldurinn geisaði kom auðvitað enginn en fyrstu batamerkin sáust í sumar. En ferðamálayfirvöld í Normandí vilja auðvitað draga athygli ferðafólks að fleiru áhugaverðu í landshlutanum. Segja má að Normandí eigi mikið inni. Það er auðvelt að ferðast þangað, t.d. annað hvort akandi eða í lest frá París – með lest um Ermarsundsgöngin eða ferju þvert yfir. Einn ferjustaðanna í Calvados-héraði er einmitt Ouistreham, spölkorn frá Caen.
Og hvað gæti lokkað ferðafólk á þessar slóðir annað en að vitja söguslóða víkinga eða innrásarinnar 1944? Túristi nefnir þá helst fagrar sveitir, hægan takt, marga gistimöguleika, góðan mat og drykk – og svo er það þetta notalega og afslappaða fólk, Normannarnir.

Caen og nágrannasveitir eru góðir fulltrúar alls þess besta sem Normandí hefur að bjóða: merkilega sögu, ríkan menningararf og ekki síst góðan og heilnæman mat. Engin vandkvæði fylgja því að tala ensku ef franskan er ekki upp á marga fiska og ferðafólki frá Norðurlöndum virðist sérlega vel tekið. Normannar eru nefnilega stoltir af norrænum rótum sínum, hafa fyrir löngu fyrirgefið víkingum ránsferðir þeirra um héruðin – geta tæplega annað þar sem þeir runnu saman við Franka og Galla, bjuggu til þetta fólk sem erjað hefur landið þarna síðan í þúsund ár.

Túristi átti þess kost nýverið að fara til Caen og skoða sig dálítið um þar i grenndinni. Borgin kom á óvart, skemmtilegar litlar verslanir, fjöldi veitingastaða. Þrátt fyrir að Caen hafi verið eyðilögð að stórum hluta í stríðinu eru í miðborginni víða gömul hús og húsaraðir sem sluppu að einhverju leyti og hafa verið endurbætt eftir stríð.

Hér látum við duga að nefna Château de Caen og klaustrið Abbaey aux Hommes og aðliggjandi kirkju, Église Saint-Étienne, þar sem er hvílustaður Vilhjálms sigursæla (reyndar aðeins einn lærleggur).

Auðvelt er að ferðast um borgina með nýjum og glæsilegum, rafknúnum sporvögnum, en eflaust væri líka fínt að fara um á hjóli. Reyndar er lítið mál að fara fótgangandi um alla miðborgina.

Ungt fólk er áberandi á götum Caen enda er borgin kunn háskólaborg og miðstöð vísinda – Université de Caen Normandie stofnaður 1432 . Fornar bókabúðir vekja athygli og af þeim fer frægðarorð.

Annað sem ekki síður dregur að sér gesti til Caen og gleður eru frábærir veitingastaðir, óvenju margir miðað við stærð borgarinnar. Í Caen búa um 108 þúsund manns, en raunar hátt í hálf milljón ef með eru talin þau sem búa í nærliggjandi bæjum og sveitum. Í Caen má finna frábæra Michelin-staði og aðra sem dekkjaframleiðandinn mælir með, og keppinauturinn Gault et Millau-leiðarvísirinn. Spjall við nokkra kokka leiðir í ljós að mikinn sköpunarkraft. À Contre-Sens er með Michelin-stjörnu og viðurkenningu Gault et Millaut. Eigandinn og kokkurinn Anthony Caillot er þekktur í Frakklandi. Hann var t.d. valinn til að elda ofan í forsetafrúr í Frakklandsheimsókn Trump.

Anthony er bóndasonur og leggur mikla áherslu á einfaldleika og heilnæmi. Hann notar sér til hins ítrasta gnægtaborð náttúrunnar í Normandí. Þegar Túristi spyr Anthony um áhrif og strauma sem hann fylgi nefnir hann m.a. Norðurlönd. „Noma?” spyr Túristi án þess að hafa nokkru sinni borðað sjálfur á þeim fræga veitingastað í Kaupmannahöfn. Anthony lýtur strax höfði og réttir fram báða handleggi eins og í tilbeiðslu. Redzepi á Noma er augljóslega í guðatölu þarna í Caen. „À Contre-Sens “ gæti þýtt „á móti straumnum” eða eitthvað í þá áttina.

Anthony hefur oftsinnis synt gegn straumnum – með stofnun svona metnaðarfulls staðar í smáborginni og í vali á réttum og matreiðsluaðferðum. Við sitjum afslappaðir við borð á tómum veitingastaðnum og ræðum mat og aftur mat. Anthony hellir síder í glös, drykkurinn sem allir á þessum slóðum eru hreyknir af, eins og af ostunum, guðdómlegu smjörinu og eplabrennivíninu Calvados. Það verður að bíða betri tíma að borða þarna. Borðin eru fá og það er barist um þau.

Á öðrum stað í borginni er staðurinn Fragments, sem Michelin mælir með og Gault et Millau veitti eigandanum og yfirkokkinum Clément Charlot viðurkenningu 2020 sem upprennandi hæfileikamanni í matargerð. Clément hefur getið sér gott orð fyrir sköpunarkraft og nýjungar. Þarna settist Túristi niður í hádeginu og fékk sér makríl. Mjög ljúffengur.

Fleiri staði mætti auðvitað telja upp í þessari sælkeraborg. Látum duga að nefna vinalegt veitingahús, L’Aromate, þar sem ung og hæversk hjón, Axel de Caseneuve og Inès de Saint Jores, elda ofan í gesti dásamlega rétti af miklu listfengi. Staðurinn er viðurkenndur af Gault et Millau og þau Axel og Inès eiga vafalítið eftir að ná langt.

Já, svona er að vera í miðju Calvados. Matur og drykkur leika stórt hlutverk í héraðinu. Nálægðin við hafið skilar sér í bragðmiklu, heimsfrægu smjöri, ríkar hefðir í ostagerð skipa Normandí í fremsta flokk. Dugar að nefna ostana frá Camembert og Livarot. Fyrir ferðalanginn skiptir þó mestu hversu vinalegt viðmót fólksins er í Caen og annars staðar í Normandí.

Normannar halda því til haga að rætur þeirra liggi til norðurs – ætlast eiginlega til að maður skynji skyldleikann. Skemmtilegir Normannarnir. Þarna er hægari taktur en í París, miklu hægari, fólk er afslappað.

Nú stendur yfir uppskerutími eplabændanna. Svo fara eplin í vinnslu og gerjun. Til verður síder og síðar Calvados. Það hægir á umferði ferðafólks, þó koma alltaf einhverjir, aðallega Bretar, Bandaríkjamenn og Kanadamenn að vitja legstaða forfeðra sem lifðu sinn síðasta dag þarna við ströndina.

Ströndin lítur sakleysislega út þennan sólardag sem Túristi fer niður til ferjubæjarins Ouistreham og kemur við á fiskmarkaði. Innrásin á D-deginum var gerð dálítið vestar en þessi bær fór sannarlega ekki varhluta af hörmungum stríðsins. Minnismerki um þessa atburði eru við ströndina. Þau sem á horfa verða svolítið döpur, ekki aðeins vegna hörmunga þessa stríðs sem lauk fyrir bráðum 80 árum heldur út af fréttum dagsins – þeirri staðreynd að enn er barist í Evrópu og óvissa ríkir um framtíðina í álfunni og flóttafólk leitar betra lífs – líka í Ouistreham.
Það er gott að koma til Normandí – horfa til baka, en þó aðallega njóta lífsins einn dag enn.

Túristi var í Normandí í boði Atout France