Óseldu sætin færri hjá Ryanair en Wizz Air

Þotur Ryanair voru þéttsetnar í ágúst. MYND: RYANAIR

Það voru 16,9 milljónir farþega sem nýttu sér ferðir flugfélaga Ryanair í síðasta mánuði sem er 2 milljónum fleiri farþegar en í ágúst 2019. Sætanýtingin var að jafnaði 96 prósent.

Fyrir heimsfaraldur var Easyjet næststærsta lágfargjaldaflugfélag Evrópu á eftir Ryanair. Núna er það hins vegar Wizz Air sem eru í öðru sætinu enda hefur félagið stækkað hratt að undanförnu og flaug það með 4,9 milljónir farþega í ágúst. Tómu sætin í þotum Wizz Air eru hins vegar fleiri en áður var. Í ágúst var sætanýtingin hjá Wizz Air 90 prósent en á á sama tíma árið 2019 var hún 96 prósent.

Wizz Air er stórtækt í flugi til og frá Keflavíkurflugvelli en aftur á móti eru Ísland og Færeyjar einu löndin í Vestur-Evrópu þar sem Ryanair hefur ekki ennþá haslað sér völl.