Samstarfssamningur við Fimleikasambandið

Í tilefni af undirritun samningsins þá hoppuðu þau saman fimleikafólkið og markaðsfólk Icelandair. MYND: ICELANDAIR

Icelandair og Fimleikasamband Íslands undirrituðu í gær nýjan samstarfssamning í sal Gerplu í Kópavogi. Með samstarfinu mun Icelandair styðja við starf Fimleikasambandsins og starf afreksfólks í fimleikum sem felur í sér mikil og kostnaðarsöm ferðalög um allan heim að því segir í tilkynningu.

Þar er meðal annars bent á að í morgun hafi fimm íslensk landslið í fimleikum flogið til útlanda.

„Fimleikar eru ein stærsta íþróttagreinin á Íslandi og það er því sérstaklega ánægjulegt að hefja samstarf við okkar frábæra afreksfólk á þessu sviði. Íslenskt fimleikafólk hefur svo sannarlega haldið merkjum Íslands á lofti og sýnt að Ísland á fullt erindi meðal stórþjóða í íþróttinni,“ segir Sylvía Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu og markaðsmála, í tilkynningu.

„Að hefja samstarf við Icelandair markar tímamót í okkar starfi sem við erum ákaflega spennt og þakklát fyrir. Innan sambandsins eru tvær keppnisgreinar, áhaldafimleikar og hópfimleikar ásamt því að árlega ferðumst við á viðburði þar sem áherslan er ekki á keppni heldur þátttöku. Umfang ferðalaga er því gríðarstór þáttur í okkar starfsemi og mikið öryggi fólgið í því að vinna með Icelandair þar sem við getum treyst á áreiðanlegar flugferðir og framúrskarandi þjónustu,“ segir Kristinn Arason, formaður Fimleikasambands Íslands.