Segir alltof fáa stjórnmálamenn sýna ferðaþjónustunni áhuga

Ferðaþjónustan verður að fá sæti við borðið þar sem stórar ákvarðanir eru teknar, til að mynda í orkumálum. Þetta er mat formanns SAF.

Bjarnheiður Hallsdóttir
Bjarnheiður Hallsdóttir formaður SAF. MYND: ÓÐINN JÓNSSON

„Almennt séð held ég að það sé kominn tími til þess að fólk sem er í stjórnmálum, hvort sem það er á sveitastjórnarstiginu eða á Alþingi setji sig betur inn í þessa grein. Það eru alltof fáir stjórnmálamenn sem hafa sýnt henni áhuga eða sýnt viðleitni til að skilja atvinnugreinina. Því þetta er ekki bóla eða síldarævintýri heldur ein af þessum stoðum sem er komin til að vera,“ sagði Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, í ávarpi sínu á Ferðaþjónustudeginum sem fram fór í gær.

Bjarnheiður kallaði líka eftir því að ferðaþjónustunni yrði hleypt að borðinu þar sem stórar ákvarðanir í þjóðfélaginu væru teknar.

„Það er kannski eðlilegt að hún hafi ekki verið tekin inn í jöfnuna ennþá, bara 10 til 12 ár síðan ferðaþjónustan fór að skipta einhverju máli. Nú þurfum við hins vegar að horfa til framtíðar og taka hana alltaf með í reikninginn þegar við tökum ákvarðanir á borð við þessar stóru ákvarðanir í orkumálunum.“

Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar sagði jafnframt að fyrirsjáanlegt væri að árekstrar yrðu á milli atvinnugreina hvað áform um virkjanir varðar en það þyrfti að ná sátt um nýtingu auðlinda.

„Náttúran er stærsta auðlind ferðaþjónustunnar eitthvað sem við verðum að gæta eins og fjöreggs því án hennar væri ferðaþjónustan ekki að skapa þessi verðmæti sem hún er að gera,“ útskýrði Bjarnheiður.

Hér geta áskrifendur lesið ítarlegt viðtal Túrista við Bjarnheiði þar sem hún kemur meðal annars inn á það hversu erfitt það sé að fá stjórnkerfið til að líta á ferðaþjónustuna sem eina af grunnstoðum atvinnulífsins sem væri mikilvæg við öflun gjaldeyristekna og forsenda hagvaxtar.