Á Keflavíkurflugvelli hefur Wizz Air lengi verið umsvifamikið og ekkert erlent flugfélag hefur boðið upp á álíka margar ferðir til og frá landinu í sumar eins og þetta ungverska lágfargjaldaflugfélag. Í ágúst voru brottfarirnar frá Keflavíkurflugvelli 136 talsins en næst umsvifamesta erlenda félagið var með 63 ferðir en það var hið bandaríska Delta.
Wizz Air í dag orðið næststærsta lágfargjaldaflugfélag Evrópu og þar með eitt helsta flugfélag álfunnar. Og stjórnendur félagsins stefna hærra því nú í morgun staðfestu þeir kaup á 102 Airbus þotum, 72 A321neo og 27 Airbus XLR sem flestar verða afhentar á árunum 2025 til 2027.
Síðarnefnda týpan er ekki ennþá komin í loftið en um er að ræða hefðbundnar flugvélar með drægni á við breiðþotur. Þannig myndu þær komast frá Keflavíkurflugvelli til Dubaí eins og sjá má á skýringamynd Airbus hér fyrir neðan.
Í tilkynningu morgunsins frá Wizz Air er haft eftir forstjóra félagsins að markmiðið sé að flugflotinn telji samtals 500 þotur fyrir lok þessa áratugar. Það er ríflega þrefalt fleiri þotur en félagið er með í dag.
