Uppskerutíminn er framundan á La Ferme de Billy, búgarði í útjaðri Rots, lítils þorps í Calvados-héraði í Normandí. Fullþroskuð eplin falla hvert af öðru til jarðar og bíða þess að vera sópað upp og safnað saman til úrvinnslu. Einhver eplanna þurfa lengri tíma og verða sótt síðar. Rots er norðvestur af héraðsborginni Caen og slapp við eyðileggingu síðari heimsstyrjaldarinnar. Lítil gotnesk kapella, La Chapelle de l’Ortial, tilheyrir Billy-búgarðinum og stendur þarna í allri sinni tæru fegurð í aldingarði miðjum. Kapellan var reist undir lok 13. aldar og skartar litlum klukkuturni sem á sér víst ekki marga líka í Normandí. Nú er þetta frekar íhugunarstaður nútímafólks í góðum tengslum við náttúruna og gjafir hennar frekar en eiginlegt guðshús. Á vegg kapellunnar er ritað: Mange – Prie – Aime, eða Borðið – Biðjið – Elskið. Mér verður hugsað til Júlíu Róberts.

Já, blaðamaður Túrista er staddur á Billy-búgarðinum, þar sem unnar eru afurðir úr eplum: mauk, safi, síder af ýmsum gerðum, eplaedik – og Calvados auðvitað, brennivín úr eplum.
Undarlegt nafn, Billy, hugsa ég en fæ skýringu fljótlega: Maður að nafni Jacques de Billy byggði þarna hús 1651 og hóf búskap. Húsið stendur enn og hefur hýst fimm kynslóðir Vauvrecy-ættarinnar. Á fjórða áratugnum tók búið á sig þá mynd sem við blasir í dag. René Vauvrecy og Florise kona hans, foreldrar Henri, sem enn býr í gamla húsinu, keyptu nærliggjandi jarðir. Nú hefur Henri að mestu látið reksturinn í hendur í sonum sínum, Olivier og Guillaume (sem heitir kannski í höfuð frægasta manns héraðsins, Guillaume le Conquérant (Vilhjálms sigursæla). Ég hitti þessa kraftmiklu menn sem hafa fært búskapinn og framleiðsluna til nútímahorfs og hafið vinsælan veitingarekstur á búgarðinum. Báðir sinna þeir myndlist meðfram rekstrinum, mótaðir af hugmyndum sem þeir drukku í sig á New York-árum sínum. Á Billy-búgarðinum eru ræktuð epli, unnar úr þeim afurðir. Þarna er brugghús, veitingarekstur, verslun, ferðamannagisting í boði og einnig athvarf listamanna.

Eplin hanga flest enn á trjánum þegar mig ber að garði. Héri skýst undan einu trénu og forðar sér leiftursnöggt. Var eflaust að kanna sætleika eplanna. Olivier grípur eitt af jörðinni og bítur í það, tyggur íhugull og segir síðan að þetta sé allt að koma. Ég ætla að taka epli af einu trénu en Olivier stöðvar mig: „Þessi sem liggja á jörðinni eru betri á bragðið, þroskaðri – sætari.”

Þetta litla epli kemur á óvart, bragðið kraftmikið. Allt snýst um epli þarna, þó kornrækt sé líka stunduð á svæðinu. Eplasafi er alltaf á borðum Normanna, hreinn eða dálítið gerjaður – síderinn sem fæst með ólíkum blæbrigðum, mismunandi áfengisríkur.

Boðið er í bröns í veitingasal á búgarðinum. Borðin svigna undan ótal réttum. Guillaume ber ábyrgð á þessum hluta rekstrarins. „Hugsunin er sú að bjóða gestum í matarupplifunarferð um heiminn og sýna fram á að eplasafinn passar við réttina.” Þetta er enginn venjulegur fernusafi, sem við þekkjum heima. Nei! Ferskur og bragðgóður. Þéttsetið er við flest borðin. Brönsinn á Billy-búgarðinum sló í gegn. Fólk streymir þangað frá Caen og svo auðvitað túristar líka og borða fylli sína af þessu hlaðborði – ótal rétti úr ólíkum kimum sælkeraheimsins, smjörið og Normandí-ostana nafnkunnu, drekka eplasafa eða síder með – og enda svo með kaffi og jafnvel skvettu af Calvados. Pas mal!

Hugmyndin um bröns er auðvitað ensk-amerísk. Þeir bræður kynntust þessu í New York og ákváðu að þróa Normandí-útgáfu af fyrirbærinu heima fyrir. Brönsinn varð til á Englandi seint á 19. öld en það voru Ameríkanar sem gerðu þennan samruna árbíts (breakfast) og hádegisverðar (lunch) vinsælan. Ekki síst var hugsunin sú að fólk sem var dálítið þynnkulegt eftir gleðskap kvöldið áður gæti fengið staðgóða máltíð til að hefja upprisu sína. Hér á Billy-búgarðinum sýnast gestir allir bráðhressir og börnin hlaupa glöð um sali. Olivier lýsir frönsku hefðinni – að bjóða vinum til hádegisverðar með mimosa-kokteil (kampavín og ávaxtasafi). Hér er það síderinn sem ríkir.

Þeir bræður Olivier og Guillaume virðast einlæglega glaðir að hitta Íslending að máli. „Við erum líkari norrænu fólki en því sem býr í suðurhlutanum og er mótaðra af rómverskum áhrifum,” segir Guillaume. Þeir bræður eru stoltir af sögu Normanna, tengslunum við víkinga, sem skýri kannski á einhvern hátt sérstöðu Normanna – og kraftinn í þeim sjálfum. Ég get ekki annað en verið upp með mér fyrir hönd norðursins að þessir menn telji sig finna til skyldleika við okkur. Hér drýpur smjör af hverju strái og greinar trjánna svigna undan roðnandi eplum. Mér verður hugsað til bláberjabrekku heima á Íslandi.

Þeir feðgar á Billy-búgarðinum sýnast harðduglegir, og þeirra fólk. Allt er þarna með góðum brag, búsældarlegt, snyrtilegt og fínt. Hugmyndin er sú að skapa enn betri aðstæður fyrir listamenn að dvelja þarna og vinna. Listamannsdraumar bræðranna blunda í þeim, sérstaklega hjá Guillaume, sem mig langar næstum að kalla Villa. Hann er ljósari yfirlits en Olivier, sem ber nafn dregið af heiti ólífunnar suðrænu. Hér eru ólífutré og kannski á þeim eftir að fjölga í hlýnandi loftslagi. Eins er með vínviðinn. Normandí og Bretagne skera sig úr þegar horft er yfir Frakklandskortið vegna þess að í þessum tveimur norðlægu héruðum er engin stórfelld vínrækt. Það gæti breyst.
„Njótið þið enn einhverrar dagsbirtu þarna norður frá,” spyr Olivier stríðnislega. Jú, enn er skíma.

Sumarið sem er að kveðja hefur verið ógnarhlýtt. Árfarvegir hafa þornað upp. Áhrifin af því gætu komið í ljós þegar hugað verður að uppskeru næsta árs. Þetta verður í lagi núna. Eplatrénin sækja vætu um langan veg og geyma forða. Hvernig verður árgangur 2023? Olivier yppir öxlum. „Það kemur í ljós. Ef hún bregst þá aðlögum við okkur því.” Sá er rólegur. Þeir eru listamenn í eðli sínu. Líta á búskapinn og reksturinn sem sköpunarstarf. Þeir hafa breytt útliti á flöskum og umbúðum, slá léttari tóna í samsetningu á safa, síderum og líka á Calvados.

Olivier fer á flug þegar hann lýsir ólíkum aðferðum við að gerja eplasafa, blanda saman ólíkum tegundum epla. Notaðar eru 15 tegundir af eplum. Þau eru unnin á misjafna hátt til að laða fram ólíkar bragðtegundir: sætt, millisætt, þurrt og sýruríkt eða rammt. Síðastnefnda bragðið, hið ramma, er helst notað í Calvados. Um 18 kíló af eplum þarf til að gera 13 lítra af síder, sem verður svo að einum lítra af Calvados.

Billy framleiðir nokkrar tegundir af síder, sem nýtur vaxandi vinsælda, ekki síst hjá ungu fólki – og á meðal kvenna. Að auki er gerð ein tegund af perubruggi. Ýmsar leiðir eru farnar til að koma sídernum á framfæri, t.d. með því að nota hann í kokteila. Það á reyndar líka við um Calvados, sem á undir högg að sækja í baráttunni um hylli þeirri sem enn vilja styrkt vín til hressingar.

Einu sinni drakk stór hluti franskra karla staup af Calvados með kaffinu á hraðferð inn í daginn. Nú eru fáir eftir sem iðka þann sið. Æ fleiri velja frekar vískí, sem er reyndar líka framleitt í Normandí. Þá er koníak risi við hlið Calvados. Svo hafa bæst við vandræðin vegna stríðsins í Úkraínu. Rússar og Úkraínumenn voru stórkaupendur á Calvados. Nú er Þýskaland stærsti markaðurinn. En á heildina litið dregur úr neyslu á sterku áfengi.

Þeir bræður ræða þessi markaðsvandræði en láta þau ekki hagga sér mikið. Aðalatriðið sé að geta tryggt að rekstur búsins gangi nokkurn veginn.
Þeir drekka lítið sem ekkert sjálfir, skála við fólk ef svo ber við. Raunar tekur maður eftir því að síderinn þeirra í Normandí er varla talinn til áfengis enda er alkóhólmagnið innan við fimm prósent. Billy framleiðir vinsælan síder sem er aðeins um tvö og hálft prósent. Það eru engin vandræði með að selja þessa vöru á erlendum mörkuðum, í Bretlandi, Bandaríkjunum og víðar. „Vandinn er hjá íbúum Normandí,” segir Olivier. „Normannar eru ekki nógu stoltir af þessari arfleifð sinni. Frakkland er land vínsins.” Þessu vilja bræðurnir breyta. Brönsinn er ein leiðin til þess. Þeir vilja sýna fólkinu sínu fram á að það megi setjast að borðum og snæða glæsilegan og bragðgóðan mat og skola honum niður með eplasafa eða síder. Þeir trúa því að síderinn hæfi nútímafólki betur en vínið – af því að hann er ekki jafn áfengur og vínið – líka ferskari og léttari.

Það er kominn tími til að kveðja Guillaume og Olivier. Þeir benda á aldargömlu tréin næst búgarðinum sem lifðu af sprengjuregnið á stríðsárunum. Normandí var auðvitað einn helsti vígvöllurinn í lokaáfanga stríðsins. Ungu tréin fjær muna ekki þessa ógnartíma en kvíða hugsanlega afleiðingum átakanna við loftslagsbreytingar – vaxandi lofthita og langvinnri þurrkatíð. Guillaume og Olivier eru brattir þrátt fyrir allt, sannfærðir um að það finnist einhverjar leiðir til að lifa og dafna áfram í Normandí.