Tvær af hverjum þremur flugferðum norður á réttum tíma

Ferðir Icelandair til Akureyrar voru sjaldnar á réttum tíma á fyrri helmingi ársins en á sama tíma árið 2019.

Flugvöllurinn á Akureyri
Sumarblíða er engin trygging fyrir því að flugvélarnar skili sér á réttum tíma norður úr höfuðborginni. MYND: ISAVIA

Fyrstu sex mánuðina árið 2019 felldi Icelandair niður 75 ferðir til Akureyrar frá Reykjavík og 119 sinnum komu flugvélar félagsins norður meira en korteri of seint. Ástandið á fyrri helmingi þessa árs var mun verra því 143 ferðir voru felldar niður og 410 sinnu komu flugvélarnar of seint.

Í heildina skiluðu flugvélarnar sér norður á réttum tíma í 64 prósent tilvika fyrstu sex mánuði þessa árs. Aftur á móti voru 88 af hverjum 100 ferðum á áætlun á fyrri helmingi ársins 2019.

Þessar upplýsingar koma fram í grein bæjarfulltrúa Framsóknar á Akureyri á vefnum Akureyri.net en þar er þeirri spurningu velt upp hvort innanlandsflugið sé rúið trausti. Er þá vísað til þess hve oft áætlun Icelandair fer úr skorðum en ekkert annað flugfélag sinnir flugi á þessari leið.

Í grein bæjarfulltrúanna er því bætt við að ekki hafi fengist upplýsingar um frammistöðu Icelandair í júlí og ágúst en vísað er til þess að ástandið hafa lagast í síðasta mánuði en svo hefur aftur orðið röskun í byrjun september.

Og það má til sanns vegar fær því samkvæmt talningu Túrista þá skiluðu flugvélar Icelandair sér norður á réttum tíma í 24 tilvikum fyrstu 10 dagana í september. Félagið felldi hins vegar niður fimm ferðir og 15 sinnum kom flugvélin of seint norður. Áætlunin stóðst því aðeins í 55 prósent tilvika.