Samfélagsmiðlar

„Við höfum liðið fyrir forystuleysi“

„Þetta verkefni hefur verið á margra höndum en við tókum að okkur það hlutverk að teikna upp stóra áætlun. Við erum með þróunarhugmyndir og viljum fá alla hagsmunaaðila að borðinu til að sameinast um að samgöngur verði frábærar," segir Pálmi Freyr Randversson hjá Kadeco. Hann vill að skoðað verði betur hvort innanlandsflugið gæti færst á Keflavíkurflugvöll. Ruðningsáhrifin af því yrðu mikil á Suðurnesjum og í Reykjavík.

Pálmi Freyr Randversson

Kadeco, þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, vinnur sannarlega að stóru verkefni – að finna leiðir til að nýta sem best flugvallarsvæðið, skapa þar aðstöðu fyrir atvinnustarfsemi og þróa byggð. Keflavíkurflugvöllur er auðvitað einn mikilvægasti innviður landsins, tengir Ísland við umheiminn og leikur stórt hlutverk í atvinnulífi og viðskiptum landsmanna. Flugvöllurinn varð til á stríðstímum, gerður af Bandaríkjamönnum, og þjónaði varnarliðinu á meðan það var hér – eða til 2006.

Minjar frá veru Varnarliðsins – Mynd:ÓJ

Enn er völlurinn raunar hluti af hernaðarkerfi NATO og iðulega athafna sig þar herflugvélar vegna eftirlits eða æfinga. Landhelgisgæsla Íslands hefur yfirumsjón með þeim hluta flugvallarsvæðisins. Íslenska ríkið tók yfir stóran hluta gamla varnarsvæðisins og húsnæði sem þar var, stofnaði þróunarfélagið Kadeco og fól því að skapa forsendur fyrir nýtingu þess. Árið 2019 var undirritað samkomulag ríkisins, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar um skipulag, þróun, hagnýtingu og einnig markaðssetningu flugvallarsvæðisins. Kadeco var falið að leiða verkefnið. Undir lok síðasta árs var síðan kynnt vinningstillaga í alþjóðlegri samkeppni um þróun svæðisins við Keflavíkurflugvöll. Hönnunar- og skipulagsstofan KCAP, sem er með höfuðstöðvar í Sviss, varð hlutskörpust. 

Framkvæmdastjóri Kadeco er Pálmi Freyr Randversson. Hann lauk prófi í borgarhönnun (urban design) frá Háskólanum í Álaborg, var verkefna- og teymisstjóri og borgarhönnuður hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, síðan deildar- og verkefnisstjóri hjá Isavia við mótun þróunar- og uppbyggingaáætlana Keflavíkurflugvallar þar til að hann hóf störf hjá Kadeco í mars 2020. Pálmi segir að vel hafi miðað síðan vinningstillagan var kynnt fyrir níu mánuðum. 

„Þetta er gríðarlega stórt og mikilvægt verkefni. Miklu skipti í upphafi að ná að afmarka vel þann hluta þessa stóra svæðis sem ætti að skoða sérstaklega. Um leið þurfti að skipuleggja þann tíma sem úthlutað var. Okkur hefur tekist að ná hagsmunaaðilum saman við borðið, erum núna að vinna úr ýmsum ágreiningsefnum og taka ákvarðanir um ýmislegt sem þarf að klára áður en birt er sú framtíðarsýn sem við viljum stefna að. Miklir hagsmunir eru undir hjá mörgum en allir eru með sömu sýn.”

Yfirlitsmynd af þróunarsvæðinu – Mynd: Kadeco/KCAP

Nokkur sveitarfélög eiga beina hagsmuni gagnvart því hvernig flugvöllurinn verður þróaður og svæðið í kring. Þá er ekki síður mikilvægt fyrir flugfarþega og þá sem þurfa að flytja vörur til og frá vellinum að samgönguæðar verði greiðar.

„Markmið okkar er fyrst og fremst að nýta flugvöllinn betur, og það sem frá honum kemur, en líka leita hugmynda um aðra starfsemi sem er ekki endilega háð fluginu. Flugvöllurinn er auðvitað lang stærsti drifkrafturinn í atvinnulífinu hérna á svæðinu, sem um leið verður háð þessum risastóra atvinnurekanda. Það hefur þýtt að áföll verða stór ef eitthvað bregður út af. Við erum að reyna að setja eggin í fleiri körfur.”

Suðurnesin urðu fyrir stóráfalli þegar Varnarliðið hvarf á brott og annað áfall reið yfir með Covid-19. Kadeco leitar leiða til að byggðirnar í kringum flugvöllinn á Miðnesheiði verði ekki einungis háðar flugvallartengdum rekstri – þó áfram verði hann í heildina lang stærsti atvinnumiðlari svæðisins. Túristi biður Pálma að lýsa betur hugmyndum um þær aðstæður sem skapa á við flugvöllinn og hvernig tengingum við hann verður háttað. 

„Mjög lítil viðskiptatengd umferð er um Keflavíkurflugvöll í dag. Þarna sjáum við ákveðin tækifæri þó að möguleikarnir séu ekki þeir sömu og við flugvelli á þéttbýlum svæðum Evrópu og Norður-Ameríku. En við sjáum fyrir okkur möguleika á að stækka kökuna hér með því að bjóða fyrirtækjum að þróast nærri flugvellinum og tengingunum þar. Við erum jú mitt á milli meginlands Evrópu og Norður-Ameríku og eigum að tefla fram þeim tækifærum sem í því felast. Sömuleiðis eru vannýttir möguleikar í fragtflutningum. Við reynum að koma þeim til skila. Hugsanlega er hægt að flytja út meiri fisk með flugi og gera vöruna enn verðmætari. Síðan gæti það verið framtíðarhlutverk Íslands að þróa orkugjafa fyrir flug. Það er risastórt mál en er bara rétt handan við hornið. Við höfum í því sambandi tækifæri til að skoða allt svæðið í kringum flugvöllinn, þ.m.t. höfnina í Helguvík, og erum með alla hagsmunaaðila við borðið. Kadeco vill koma svæðinu í kringum Keflavíkurflugvöll á kortið sem stað þar sem verið er að þróa sjálfbærara flugvallareldsneyti (SAF – Sustainable Aviation Fuel).

Þróunarhugmyndir um Helguvík – Mynd: Kadeco/KCAP

Innan örfárra ára verða gerðar kröfur um íblöndunarefni en nánast enginn er tilbúinn í verkefnið. Isavia vinnur að umfangsmikilli endurskipulagningu Keflavíkurflugvallar og uppbyggingu mannvirkja þar og við bætist svo okkar áætlun okkar hjá Kadeco um nærliggjandi svæði. Þetta getum við lagt saman og boðið upp á aðstæður til að þróa þessar framtíðarlausnir fyrir flugið. Flugfélög ættu þá að geta haft aðgang að þessum íblöndunarefnum við flugvöllinn. Hér byggðist á sínum tíma upp aðstaða fyrir flugfélög að taka flugvélaeldsneyti á ferðum yfir Norður-Atlantshafið en í framtíðinni gætu skapast möguleikar á að draga hingað flugfélög til að sækja umhverfisvænna eldsneyti. Ef við gerum þetta hratt þá náum við forskoti bæði hvað varðar fragtflutninga og í flutningum farþega á milli heimsálfanna.”

Síðan er það rafvæðing flugsins. Pálmi segir rafvæðinguna styttra komna og að hún myndi í fyrstu einskorðast við innanlandsflugið. Meira um Keflavíkurflugvöll og innanlandsflugið síðar. En gæti Keflavíkurflugvöllur ekki misst stöðu sína vegna þróunar flugvéla í millilandaflugi – að þær þurfi ekki lengur að millilenda á leiðinni yfir Atlantshafið?

„Þessi umræða um langdrægar flugvélar hefur staðið lengi en hingað til hafa Keflavíkurflugvöllur og flugfélögin sem nýta hann boðið það góða vöru að talist hefur henta vélum af ákveðinni stærð að lenda hér. Þannig hefur Icelandair vaxið út frá því að hér sé tengistöð og sama er að segja um Play og önnur flugfélög. Keflavíkurflugvöllur hefur stutt við þessa þróun, þetta viðskiptamódel.”

Mun byggð í kringum flugvöllinn aukast stórlega með nýjum tækifærum eða er hugsunin frekar sú að halda því fólki sem þegar hefur sest þar að?

„Hér á Suðurnesjunum er mesti íbúavöxtur á Íslandi ár eftir ár, þrjú til fjögur prósent á ári. Það væri vel gert ef sveitarfélögin næðu að standa undir því. Í okkur áætlunum, sem unnar eru með sveitarfélögunum, er bent á þróunarsvæði fyrir íbúðabyggð. Hér á Ásbrú eru mikil tækifæri. Innviðir eru til staðar og lóðir klárar. Miðað við áformin á Keflavíkuflugvelli og vaxtarhugmyndir flugfélaganna og fyrirtækjanna hér í kring þá þarf íbúafjölgunin að halda áfram í núverandi takti.”

Þróunarhugmyndir um Ásbrú – Mynd: Kadeco/KCAP

Hversu langt er í að megindrættir þróunaráætlunar flugvallarsvæðisins verði að veruleika?

„Verkefnið er endalaust. Nú erum við að teikna upp myndina fyrir árið 2050 – með fasaskiptum á leiðinni þangað. En það er enginn lokapunktur. Viðhalda þarf þróunaráætluninni. Á þessum tíma framundan sjáum við fyrir okkur samgöngubætur á svæðinu og erum að vinna að ýmsum verkefnum sem lengi hefur verið talað um en við viljum hrinda af stað.”

Miðast þessi áætlun og verkefnin henni tengd við hagsmuni ferðaþjónustunnar, t.d. varðandi aðgengi ferðafólks, hvernig það kemst til og frá flugvellinum?

„Já, eitt af því sem við erum að láta okkar hönnuði skoða er hliðið að Íslandi (Gateway to Iceland), þ.e. svæðið í kringum Leifsstöð og Reykjanesbraut. Markmiðið er að það verði enn áhugaverðara og spennandi en nú að koma til Íslands: Að Íslandsferðin byrji ekki á því að ganga yfir stórt bílastæði – að þú vitir ekki í fyrstu hvort þú hefur lent á Íslandi eða tunglinu þegar þú leggur af stað í átt að höfuðborgarsvæðinu. Þetta hlið yrði við torg nærri þeim stað þar sem Marriot-hótelið er í dag. 

Palm bendir á aðaltorgið gegnt „Demantshliði“ Isavia – Mynd: ÓJ

Við viljum líka að ferðafólkið sjái tækifæri í sveitarfélögum hér á Suðurnesjum, það verði t.d. aðlaðandi möguleiki að skoða og staldra við Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ. En það veigamesta sem við vinnum að eru tillögur um hvernig efla megi almenningssamgöngur milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur. Annars vegar er um að ræða tillögur um aðgerðir sem fara mætti strax í og síðan breytingar sem taka lengri tíma.”

Túristi grípur orðið og nefnir ferðalangana sem þurfa að hrekjast undan veðrum út á bílaplan í leit að dísilrútu sem flytur þá til Reykjavíkur – oft eftir nokkra bið. Þarna er augljós tímaskekkja. Þjónustan ekki eins þétt og góð og hún þyrfti að vera og flutningsmátinn gamaldags. Verða breytingar á þessu?

„Þetta er það sem við höfum verið að skoða með Isavia og Vegagerðinni, sem rekur strætóferðirnar á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar, og sérleyfishöfunum sem sinna fólksflutningum til og frá Leifsstöð samkvæmt samningi við Isavia. Kadeco hefur lagt til að stoppistöðin verði á betri stað, fast við flugstöðina, flutningsþjónustan verði auðskiljanlegri, hægt verði að kaupa farmiða með einfaldari hátt, tíðni ferða sé meiri, dregið úr þeirri óvissu um ferðir og ferðatíma sem margir hafa upplifað. Síðan leggjum við til að leiðin frá flugstöðinni og út á Reykjanesbraut verði stytt. Það er hægt að gera með frekar einföldum og ódýrum hætti með því að leggja forgangsreinar. Kadeco vill benda á lausn sem er ekki alltof langt inni í framtíðinni, ekki sé verið að bíða lengi eftir endanlegri lausn en ekkert gerist þangað til. Tæknileg útfærsla er ekki aðalatriðið, eða hvaða gerð af flutningstækjum verða fyrir valinu, heldur að gerðar séu úrbætur fljótlega á samgöngukerfinu sjálfu, tengingar verði betri og almenningsvagnarnir fái forgang til og frá vellinum. Þjónustan við farþega verði almennt bætt og aukin.”

Rauða línan sýnir hugsanlega legu forgangsbrautar fyrir almenningsvagna – Mynd: Kadeco/KCAP

Hingað til hafa verið umræður um stóra lausn á samgönguvandanum – að hraðlestarkerfi verði byggt upp á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Kadeco útilokar ekki þá lausn, vill halda eftir rými fyrir hraðlest, en vill að byrjað verði á augljósum lagfæringum.

„Þetta verkefni hefur verið á margra höndum en við tókum að okkur það hlutverk í þessari vinnu að teikna upp stóra áætlun. Við erum með þróunarhugmyndir og viljum fá alla hagsmunaaðila að borðinu til að sameinast um að samgöngur verði frábærar. Samtalið er byrjað og fólki líst vel á þær úrbætur sem hafa verið lagðar til. Svo þarf að finna þessu farveg. Einhver verður að ákveða að færa okkur þetta hlutverk – að halda utan um þetta – eða einhverjum öðrum. Þetta er svipað og hjá Betri samgöngum og Borgarlínu. Einhver hugmynd varð til hjá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og síðan var stofnað félag til að hefja samtal um lausnir. Þetta er mjög stórt verkefni og gera þarf mikla útreikninga.”

Kadeco hefur tekið ákveðið frumkvæði í þessum málum en stendur það ekki upp á stjórnvöld að leiða þetta samstarf og koma því í réttan farveg?

„Jú, ég tel það.”

Mörgum þykir ríki, sveitarfélög, Vegagerðin, Strætó og Isavia, ekki hafa staðið sig nógu vel í að svara kalli tímans og bjóða upp á góðar og vistvænar samgöngur fyrir þær milljónir farþega sem koma til landsins og hverfa þaðan aftur. Þá stingur í augun hversu gríðarlega víðfeðm bílastæði einkenna allt umhverfi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Þarf þetta ekki að breytast?

„Að mínu mati þarf það að gerast. Og ég veit að Isavia ætlar að byggja bílastæðahús og þá um leið batnar ásýndin. Svo þarf að ná utan um starfsemi bílaleiganna. Þetta hefur verið dálítið eins og villta vestrið, sú starfsemi er úti um allt, 20 til 30 bílaleigur hér og þar. Enginn hefur haldið utan um þetta og fundið betri rekstrarlausnir. Við tókum að okkur að skoða þetta, höfum leyft okkur að taka utan um verkefni sem augljóslega þarf að leysa.”

Kadeco er jú þróunarfélag. Þið eigið að laða fram það besta sem flugvallarsvæðið hefur að bjóða og nýta kraftana rétt. 

„Þannig höfum við skilið þetta,” segir Pálmi og hlær. 

Er hann bjartsýnn á þessi samtöl við alla þá sem móta aðstæður á flugvellinum fyrir íbúa, flugfarþega og fyrirtæki skili árangri á næstunni?

„Ég er mjög bjartsýnn á það. Hingað til hefur þetta verið á höndum margra, engin hefur haldið utan um verkefnið. Á sama tíma hefur lengi verið talað um tækifærin á flugvallarsvæðinu, t.d Airport City, og mikilvægi þess að tengja saman stórskipahöfnina í Helguvík og Keflavíkurflugvöll. Bent hefur verið á að hvergi í heiminum finnist annað eins. Það hefur mikið verið talað um þetta en hugmyndir aldrei settar á blað. Við höfum hinsvegar verið að vinna að því með okkar ráðgjöfum að kortleggja þessi tækifæri. Eru þau raunverulega til staðar – eða er þetta bara eitthvað sem fólk heldur að geti orðið? Sumt er þannig. Við höfum líka komist að ýmsu sem við vissum ekki fyrir. Nú fáum við framtíðarsýn fyrir flugvallarsvæðið, bendum á uppbyggingartækifæri og finnum þeim stað. Við hér erum með forskot á aðra hluta landsins vegna þeirrar miklu greiningarvinnu sem átt hefur sér stað.”

Fyrri framtíðarsýn – Úr eldri þróunaráætlun (Master Plan) Isavia

Það hafa verið birtar teikningar af framtíðarhugmyndum um uppbyggingu byggðar fast við flugstöðina, áðurnefnda flugvallarborg eða Airport City, sem hýst gæti fyrirtæki og fólk sem hag hefði af slíkri nálægð við alþjóðaflugvöll. Þetta virkaði eins og framtíðarbíómynd – að þetta gæti litið svona út einhvern tímann. Var þetta ekki byggt á raunhæfum athugunum?

„Nei, þetta hafa verið draumsýnir. Það er ekkert mál að selja þessa sögu: að staðsetningin sé góð og hér á þessum krossgötum muni alþjóðleg fyrirtækja koma sér fyrir. Hér nærri sé stórskipahöfn og hægt að umskipa fragt o.s.frv. Ein ástæðan fyrri því að við völdum tillögu KCAP í samkeppninni um þróunaráætlun fyrir flugvallarsvæðið var að þar eru allir með fæturna á jörðinni. Þau tala um eyjaklasa. Að þétting verði hér á Ásbrú sem bæti búsetuskilyrði íbúa þar. Þar verði líka til ný atvinnutækifæri. Ásbrú er þá ein eyjan. Svo eru það torgið og Demantssvæði Isavia fyrir fragtflutninga. Þetta væru eyjar. Loks flugstöðin og Helguvíkurhöfn. Þetta er breyting frá fyrri hugmyndum. Nú er búið að færa mikinn hluta af því sem átti að vera fast við flugstöðina yfir á svæðið kringum torgið. Þetta er í anda þess sem kallað er airport urbanism – tengja sveitarfélögin betur starfseminni á flugvellinum. Við vinnum að þessu verkefni út frá því að hér sé um 400 þúsund manna samfélag. Verkefnið gæti skapað tiltekin tækifæri en við ætlum að halda okkur við tiltekinn ramma. Við miðum ekki við að hér verði flugvöllur sem 50 milljónir farþega fari um. Við ætlum ekki að byggja skýjaborgir.”

Þröng á þingi í flugstöðinni – Mynd: ÓJ

Við getum nánast gefið okkur að innan fárra ára komi fjórar eða fimm milljónir ferðamanna til landsins. Kadeco hefur lagt til að stoppistöðin verði á betri stað, fast við flugstöðina, flutningsþjónustan verði auðskiljanlegri, hægt verði að kaupa farmiða með einfaldari hátt, tíðni ferða sé meiri, dregið úr þeirri óvissu um ferðir og ferðatíma sem margir hafa upplifað. Síðan leggjum við til að leiðin frá flugstöðinni og út á Reykjanesbraut verði stytt. Samt eru innviðir enn þannig að þröngt er um fólk á álagstímum og enn leitar það að rútu úti á bílaplani. Við tökum ferðaþjónustuna ekki þeim tökum sem hún á skilið. Það er eins og það eigi að duga að fólk kaupi farmiða hingað til lands en svo verði það að redda sér sjálft þegar til landsins er komið. Hvað ætli framkvæmdastjóri Kadeco, þróunafélags Keflavíkurfugvallar, segi um þessa framsetningu Túrista?

„Þetta á ekki bara við um Keflavíkurflugvöll heldur alla innviði á landinu. Ég held að það hefði örugglega mátt gera betur, ná betur utan um þetta, en á sama tíma verður að benda á að búið er að gera gríðarlega mikið. Verið er að uppfæra margt í kerfinu til að koma öllu þessu fólki til landsins. Á þeirri leið eru enn margir flöskuhálsar, bæði í flugstöðinni, í almenningssamgöngum til og frá vellinum. Það hefði mátt ná betur utan um þetta. Þeir ráðgjafar og sérfræðingar sem koma hingað til okkar að utan láta okkur heyra það – að þjónustan varðandi bílaleigubílinn hafi ekki verið í lagi, viðkomandi hafi þurft að ganga yfir stórt bílastæði til að ná í bílinn, að rútan hafi ekki farið á tilskyldum tíma, o.s.frv.”

Breytist þetta nokkuð fyrr en lokið verður þeim miklu stórbyggingum sem nú eru að rísa og stækka eiga flugstöðina til muna? Er hægt að gera úrbætur strax?

„Ég veit að það er verið að skoða að koma upp nýrri og betri stoppistöð til bráðabirgða fyrir rúturnar. En það er bara einn hluti myndarinnar. Svo þarf að auka tíðni ferða, bæta upplýsingaflæði um nálgun og ferðatilhögun – hvar rútan endar í Reykjavík.”

Meðal þess sem verður snúið að leysa er aðstaða fyrir bílaleigubílana. Stór hluti ferðafólks sem hingað kemur tekur bíl á leigu við Keflavíkurflugvöll og ekur þaðan um landið. Bílaleigur eru plássfrekur bissniss.

„Við erum sér á báti í þessum efnum. Stærsti hluti ferðafólksins tekur bíl á leigu og bætist inn í umferðina á háannatímum á höfuðborgarsvæðinu þegar komið er með morgunflugi til landsins. Skoða mætti betur hvar best er að koma bílaleigunum fyrir. Við erum bara 400 þúsund og tökum á móti milljónum ferðamanna á hverju ári. Það verða alltaf einhverjir árekstrar. Þetta verður líklega aldrei akkúrat eins og við viljum hafa þetta.”

Þetta er góður punktur. Líklega gleymum við að segja einmitt frá þessu: Þjóðin er fámenn en túristarnir eru margir. Það má alltaf búast við að erfiðleikar skapist við að taka á móti miklum fjölda fólks – margfaldri tölu landsmanna. 

„Svo erum við líka alltof krítísk á túristana. Ég spurði Dana um viðhorfið gagnvart ferðamönnum. Hann skildi ekki spurninguna. Í Kaupmannahöfn eru allir ánægðir með að fá ferðamenn. Við erum upptekin við að finna það sem neikvætt er í tengslum við komu ferðamanna hngað. Að mínu mati eigum við að vera þakklát fyrir það hversu vel hefur gengið. Við höfum rekist á veggi en erum að læra.”

Á bílastæði við Flugstöð Leifs Eirikssonar – Mynd: ÓJ

Við hefðum getað endað þarna. En Túristi vill ekki ljúka spjallinu suður í Ásbrú þennan grámyglulega rigningardag án þess að ítreka mikilvægi þess að bæta almenningssamgöngur til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Eldri kynslóðir hafa vanist því að aka einkabílum sínum þessa leið milli heimilis og flugstöðvar og geyma bílinn á víðáttumiklu bílastæði. Brjótast síðan að bílnum, oft býsna langa leið, stundum í vondu veðri með farangur. Þetta er staða sem margt ungt fólk sættir sig síður við, vill komast út á flugvöll og þaðan heim við ferðarlok á ódýrari, hraðari og umhverfisvænni máta – eins og býðst víðast í nágrannalöndum okkar.

„Við höfum liðið fyrir forystuleysi. Enginn hefur borið ábyrgð á þessu frá a til ö. Þetta er risastórt verkefni, sem við hefðum getað sinnt betur. Karpað hefur verið um smáatriði sem litlu skipta, t.d. um það hvernig skilgreina eigi almenningsamgöngur. Það verður að skapa sameiginlega sýn á það hvaða þjónustu vð viljum bjóða – varðandi miðakaup, aðgengi, hraða og tíðni. Einhver verður að fá það hlutverk að keyra verkefnið áfram.”

Fyrirtækið sem rekur flugstöðina, Isavia, hefur beina fjárhagslega hagsmuni af því að selja rútufyrirtækjum sérleyfi til að njóta aðstöðu við flugstöðina og sinna fólksflutningum þaðan. Gerist eitthvað á meðan það fyrirkomulag gildir?

„Það er auðvitað hagur Isavia og allra annarra fyrirtækja sem tengjast flugstöðinni að upplifun farþega sé góð – frá upphafi ferðar til loka hennar. En auðvitað er staðreyndin sú að hver hugsar um sitt. Þegar farþeginn er kominn út af þínu svæði þá er hann á ábyrgð einhvers annars. Ég tel að einhver þurfi að horfa á heildarmyndina, bera ábyrgð á öllu ferlinu, og sjá til þess að upplifun farþega verði enn betri. Þetta er kannski verkefni fyrir nýtt þróunarfélag. Verkefnið er stórt. Ef vel tekst til með umbætur á almenningssamgöngukerfinu dregur úr þörf á uppfærslu Reykjanesbrautar og um leið yrði Keflavíkuflugvöllur vænlegri kostur í umræðunni um hvaða flugvöllur ætti að leysa Reykjavíkurflugvöll af í innanlandsfluginu.”

Framtíðarsýn – Mynd: Kadeco/KCAP

Endum á þessu sprengjusvæði: Getur Keflavíkurflugvöllur tekið við hlutverki Reykjavíkurflugvallar í innanlandsfluginu, ef mið er tekið af fjarlægð?

„Þetta hefur verið gert annars staðar, flugvöllum nærri miðborgum lokað og innanlandsflug fært í 30 til 60 mínútna akstursfjarlægð. Það er engin spurning að skoða verður þennan möguleika. Hann hefur ekki verið skoðaður. Þegar litið var á hvaða kostir kæmu til greina í stað Reykjavíkurflugvallar þá var Keflavíkurflugvöllur ekki nefndur. Mér þótti það sérkennilegt. Það er svo önnur umræða hvar eigi að verða til varaflugvöllur. Í því sambandi má ræða Suðurlandið eða skoða betur hvernig vellirnir á Akureyri eða Egilsstöðum geta virkað.

Það væru mikil ruðningsáhrif af nýrri nálgun – að skoða flutning innanlandsflugsins til Keflavíkurflugvallar. Þá verða almenningssamgöngur að verða miklu betri og bjóða verður upp á fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum – fyrir fólk utan af landi sem þarf bráðaþjónustu. Á sama tíma yrði til byggingarland í Reykjavík sem er gríðarlega mikilvægt fyrir þróun alls höfuðborgarsvæðisins.”

Nýtt efni
Veitingaþjónusta

Íslenskt atvinnulíf er mjög háð aðfluttu vinnuafli. Það á ekki síst við um ferðaþjónustuna. Umsvif hennar væru mun minni ef ekki kæmu hingað útlendingar þúsundum saman til starfa á ári hverju. Samkvæmt Hagstofunni voru 35.233 starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi í júní 2023. Þar af voru um 15.500 útlendingar.  Heildartalan yfir þá sem …

Áætlunarflug milli Akureyrar og London hófst í lok október og síðan þá hafa þotur Easyjet flogið þessa leið tvisvar í viku en engin talning fer fram á fjölda ferðamanna á Akureyrarflugvelli öfugt við það sem tíðkast á Keflavíkurflugvelli. Til að meta fjölda breskra ferðamanna í beina fluginu þarf því að styðjast við gistináttatölur Hagstofunnar en …

Frakkar fjölmenna til Íslands allt árið um kring og í fyrra flugu frá Keflavíkurflugvelli 99 þúsund farþegar með franskt vegabréf. Það jafngildir því að fimm af hverjum 100 ferðamönnum hér á landi séu franskir enda eru flugsamgöngur milli Íslands og Parísar tíðar og stefnir í að þeir verði óvenju miklar næsta vetur. Það eru því …

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …