Vilja ekki ferðast með pabba og mömmu

Þau eru býsna stór upp á sig nútímabörnin. Nú þykir þeim hallærislegt að ferðast með foreldrum sínum, ef marka má könnun sem norræna Apollo-ferðaskrifstofan gerði og danski ferðafjölmiðilinn Standby.dk segir frá.

Brottfararsalur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar Mynd: ÓJ

Þau hjá Apollo búast við töluverðri spurn eftir utanlandsferðum í haust, jafnvel svo að níu af hverjum tíu ferðum eru að verða uppseldar. Einn áfangastaður sker sig úr: Grikkland. Þangað vilja flestir danskir, norskir, sænskir og finnskir ferðamenn halda og njóta haustblíðu þegar kólna tekur heima fyrir og rigningardögum fjölgar. Aðrir kjósa frekar að fara til Spánar, Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Kýpur eða Tyrklands. Ef nánar er rýnt í það hvaða áfangastaðir það eru í fyrrnefndum löndum sem bókaðar hafa verið ferðir til þá kemur í ljós að í fyrstu þremur sætunum eru Krít, Gran Canaria og Fuerteventura. Næst á eftir fylgja Parga í Grikklandi og í fimmta sæti er eftirlætisstaður Íslendinga, Tenerife.

Norrænir ferðamenn, að Íslendingum og Færeyingum ótöldum, vilja líka gjarnan komast í stuttar borgarferðir á hausdögum. London, Róm og Barselóna eru vinsælir áfangastaðir en í fjórða sæti er New York, sem hefur verið erfitt að nálgast á síðustu árum vegna Covid-19. Nú hafa landamærin hinsvegar verið opnuð að fullu og heimsborgin vestanhafs lokkar marga til sín sem fyrr. Í fimmta sæti er svo París. Þau hjá Apollo segja að New York hafi ýtt Prag út af topplistanum en nefna um leið að margir vilji líka fara til Aþenu. 

Jafnvel þó starfsfólk Apollo greini mikinn og vaxandi ferðavilja sinna viðskiptavina þá eru þeir hinir sömu ekki endilega til í að skella sér í stórborgarferð með hverjum sem er. Apollo gerði könnun í samstarfi við skoðanakannanafyrirtækið Mantap Global AB í áðurnefndnum fjórum norrænum ríkjum. Í ljós kom að 43 prósent kjósa að fara í slíka ferð með sambýlingi, 28 prósent vilja hafa börnin með í för en 16 prósent segjast vilja skella sér í svona reisu með vinum. Aðeins þrjú og hálft prósent aðspurðra nefndu að þau kysu helst að ferðast með foreldrum sínum. Næstum helmingi fleiri eru alveg til í að fara einir í stórborgarferð í haust. Apollo segir raunar að slíkar sólóreisur njóti stöðugt meiri hylli. 

Apollo er leiðandi ferðaskrifstofa á Norðurlöndum, starfar í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og heyrir undir DER Touristic Nordic sem er hluti af þýsku ferðasamsteypunni REWE. 900 manns starfa undir merkjum Apollo og þjóna einni milljón ferðamanna á Norðurlöndum.