Vill verðlagningu flugfélaganna upp á borðið

Bandaríkjaforseti segist ætla að setja pressu á fluggeirann með því að auka rétt farþega, meðal annars til endurgreiðslu á aukagjöldum.

Það eru langt því frá aðeins lágfargjaldafélög sem rukka aukalega fyrir það sem áður var hluti af farmiðaverðinu. MYND: EASYJET

Nú í sumar biðluðu bandarísk stjórnvöld til flugfélaga að bjóða börnum sæti við hlið forráðamanns án aukagreiðslu. Sum flugfélög tryggja nefnilega ekki foreldrum, sem bóka ódýrustu miðana, sæti samsíða börnunum nema borgað sér sérstaklega fyrir og er Icelandair eitt þeirra félaga sem hefur tekið upp þessa stefnu.

Nú vilja ráðamenn í Hvíta húsinu ganga lengra í að auka rétt flugfarþega því í gær boðaði Joe Biden, Bandaríkjaforseti, nýjar reglur sem kveða á um að aukagjöldin, sem flugfélög leggja ofan á auglýst farmiðaverð, verði sýnilegri á bókunarsíðum. Það verði að liggja fyrir í upphafi hvað greiða þarf aukalega fyrir töskur, breytingar og val á sætum en vanalega koma þessar upplýsingar ekki fram fyrr en í seinni skrefum bókunarferlisins.

Með þessari breytingu segist Bandaríkjaforseti vera að einfalda verðsamanburð og gera fólki kleift að velja hagstæðasta flugið samkvæmt því sem fram kemur í tísti frá Hvíta húsinu.

Þrýstisamtök flugfélaga í Bandaríkjunum, Airlines for America, var snögg að bregðast við þessari gagnrýni forsetans og sendu í gær frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að samkeppni í flugi vestanhafs sé hörð og verðlagning flugfélaganna gegnsæ.

Samgönguráðherra Bandaríkjanna, Pete Buttigieg, hefur áður gefið út að flugfélög verði að bæta þjónustuna og vísaði þar sérstaklega til þeirrar staðreyndar að í sumar riðluðust áætlanir flugfélaga óvenju oft.

Bandaríska samgönguráðuneytið hefur einnig lagt til reglur um aukinn rétt farþega til endurgreiðslu, til að mynda á töskugjöldum ef farangri seinkar og eins á þóknun fyrir aðgang að þráðlausu neti ef sú þjónusta virkar ekki.