Birta uppgjörið þremum vikum fyrr

MYND: SCHIPOL

Ábatasamasti fjórðungur ársins í ferðageiranum er sá þriðji því þá eru flestir á ferðinni og verðið hæst. Og það er þessa þrjá mánuði, júlí til september, sem flugfélögin þurfa að hagnast nægjanlega mikið til að bæta upp tapið sem einkennir oftast reksturinn yfir vetrarmánuðina.

Fjárfestar bíða því skiljanlega spenntir eftir næsta uppgjöri frá flugfélögunum og kannski er spennan sérstaklega mikil hér á landi þar sem mikið er undir í fluggeiranum. Icelandair og Play söfnuðu til að mynda tugmilljarða hlutafé í fyrra og hittifyrra, bæði frá einstaklingum og sjóðum. Í dag eru til að mynda níu íslenskir lífeyrissjóðir á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa Icelandair.

Það félag birtir sitt uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung í lok þarnæstu viku líkt og áður hafði verið auglýst. Stjórnendur Play gerðu aftur á móti ekki ráð fyrir að gefa út sitt uppgjör fyrr en þann 25. nóvember en birtingu þess hefur verið flýtt til 3. nóvember.

Spurð afhverju uppgjörinu hefur verið flýtt þá segir Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri Play, að með reynslunni og sterku teymi sé ferlið orðið smurðara og uppgjör þar af leiðandi fyrr á ferðinni en þegar fyrirtækið var nýtt á markaði.