Breskir kaupmenn ósáttir við u-beygju ríkisstjórnarinnar

london oxfordstraeti
Ferðamenn munu ekki fá endurgreiddan virðisaukaskatt af þeim vörum sem þeir kaupa í Bretlandi. MYND: FERÐAMÁLARÁÐ LONDON

Þær umdeildu breytingar sem breska ríkisstjórnin boðaði á skattakerfinu í lok síðsta mánaðar voru dregnar tilbaka í dag af Jeremy Hunt, nýjum fjármálaráðherra. Þar með er ljóst að svokölluð tax-free verslun verður ekki á boðstólum á ný en hún lagðist af í Bretlandi í byrjun síðasta árs.

Gamla fjárlagafrumvarpið, sem nú heyrir sögunni til, gerði ráð fyrir að ferðamenn myndu á nýjan leik fá virðisaukaskatt af vörum endurgreiddan við landamærin og átti að verja um tveimur milljörðum punda, um 330 milljörðum króna, í þessar endurgreiðslur á næsta ári.

Nú ætlar breska stjórnin hins vegar að nýta fjármagnið í annað og það eru kaupmenn í Bretlandi ekki sáttir við en þeir hafa lengi bent á að þessar endurgreiðslur ýti undir kaupgleði útlendinga og sérstaklega ferðafólks frá löndum utan Evrópu. Horfa þeir þá sérstaklega til Asíubúa sem eyða sumir hverju miklu í alls kyns merkjavöru á ferðum sínum.