Samfélagsmiðlar

Brexit tefur Parísarlestina

Margvíslegir erfiðleikar hafa hrannast upp hjá Bretum eftir að þeir gengu úr Evrópusambandinu. Brexit er hindrun í vegi þeirra Breta sem vilja ferðast til Evrópusambandslanda, vegabréfaskoðun og eftirlit tefur verulega afgreiðslu farþega lestarinnar til Parísar.

Í sumar voru tíðar fréttir af vandræðum sem rakin voru til Brexit á helstu millilandaflugvöllum Bretlands: Heathrow, Gatwick, Stansted, Manchester og Luton, sem bættust ofan á manneklu og verkfallsaðgerðir. Svipuð staða er á St. Pancras-lestarstöðinni í London þaðan sem Eurostar-lestin heldur í átt til Parísar um Ermarsundsgöngin. Ferðin á Gare Du Nord-stöðina í París tekur aðeins 2 stundir og 16 mínútur. Aftur á móti getur það verið tafsamt og leiðinlegt að bíða afgreiðslu á St.Pancras í London vegna landamæraeftirlitsins.

The Guardian hefur eftir fráfarandi forstjóra lestarfyrirtækisins, Jacques Damas, að þetta ástand eftir Brexit hafi leitt til þess að afköstin í afgreiðslunni fyrir lestarferðirnar til Parísar hafi minnkað um þriðjung. Hann segir að í miðborg London hafi fólk í sumar ekki upplifað sömu raðir og ringulreið og sáust við ferjuhafnirnar við Ermarsund vegna þess að Eurostar hafði færri lestir í ferðum. St. Pancras-stöðin er í Bloomsbury ekki langt frá British Museum. 

Allir breskir þegnar sem nú vilja fara með Parísar-lestinni þurfa áður að láta stimpla vegabréf sín. Þetta tefur afgreiðslu hvers og eins um 15 sekúndur eða meira og þegar fjöldinn í röðinni er mikill eru heildaráhrifin eftir því – eða um þriðjungi minni afköst, eins og að framan sagði. Ekki hefur dugað að endurnýja vegabréfahlið og manna allar afgreiðslustöðvar. Aðeins tekst að afgreiða 1.500 farþega á klukkustund í stað 2.200 fyrir Brexit. Þetta leiðir til þess að langar raðir hafa myndast við alþjóðaafgreiðsluna á St. Pancras-stöðinni en Bretar hafa ekki átt því að venjast á síðustu árum. 

Ofan á skert afköst bætist svo að bresk yfirvöld leggja á hærri kílómetragjöld á Evrópulestina en Frakkar, gjaldið er þrefalt hærra í Bretlandi. Og til að bæta gráu ofan á svart þá hafnaði breska ríkisstjórnin beiðni Eurostar um að fyrirtækið fengi ríkistryggt lán í kórónaveirufaraldrinum eins og flugfélögin fengu. Afleiðingin er sú að lestarfargjöldin verða há um ókomna framtíð vegna þess að Eurostar þarf greiða af lánum með háum vöxtum. Ríkisstjórn Íhaldsflokksins undir forsæti David Cameron seldi hlut ríkisins í Eurostar, sem nefnd hefur verið „græna tengingin” við Evrópu, til einkaaðila árið 2015 þrátt fyrir töluverða andstöðu.

Vandræði breskra ferðamanna vegna Brexit eiga svo eftir að aukast enn með innleiðingu hertara eftirlits í komu- og brottfararkerfi Schengen-ríkjanna innan EES. Þá þurfa allir sem fara um ytri landamærin að skila fingrafari og mynd. Engin vegabréf verða stimpluð. Eftir á að koma í ljós hvaða kostnaður fellur til vegna þessara breytinga og hversu mikið breskir ferðamenn þurfa að greiða vegna nýrrar skráningar.

Nýtt efni
Veitingaþjónusta

Íslenskt atvinnulíf er mjög háð aðfluttu vinnuafli. Það á ekki síst við um ferðaþjónustuna. Umsvif hennar væru mun minni ef ekki kæmu hingað útlendingar þúsundum saman til starfa á ári hverju. Samkvæmt Hagstofunni voru 35.233 starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi í júní 2023. Þar af voru um 15.500 útlendingar.  Heildartalan yfir þá sem …

Áætlunarflug milli Akureyrar og London hófst í lok október og síðan þá hafa þotur Easyjet flogið þessa leið tvisvar í viku en engin talning fer fram á fjölda ferðamanna á Akureyrarflugvelli öfugt við það sem tíðkast á Keflavíkurflugvelli. Til að meta fjölda breskra ferðamanna í beina fluginu þarf því að styðjast við gistináttatölur Hagstofunnar en …

Frakkar fjölmenna til Íslands allt árið um kring og í fyrra flugu frá Keflavíkurflugvelli 99 þúsund farþegar með franskt vegabréf. Það jafngildir því að fimm af hverjum 100 ferðamönnum hér á landi séu franskir enda eru flugsamgöngur milli Íslands og Parísar tíðar og stefnir í að þeir verði óvenju miklar næsta vetur. Það eru því …

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …