Búið að veiða 148 langreyðar

Alþjóða dýraverndunarsjóðurinn fordæmir hvalveiðar við Ísland og segir að á vertíðinni sem er að ljúka hafi 148 langreyðar verið drepnar án þess að öruggur markaður sé fyrir kjötið. Því er fagnað að stjórnvöld ætli að kanna aðferðir við veiðarnar. Jafnframt eru þau hvött til að fara í saumana á því hvaða fjárhagslegir hagsmunir réttlæti hvaladrápið.

Mynd: ÓJ

Það vakti athygli fjölmiðla víða um heim þegar hvalveiðar hófust á ný í sumar á vegum Kristjáns Loftssonar. Ferðafólk hefur getað horft á það utan girðingar þegar hvert stórhvelið af öðru hefur verið dregið upp á vinnsluplan Hvals h.f. Þá hafa alþjóðleg dýraverndunarsamtök fylgst grannt með veiðunum og birt upplýsingar um þær.

Í fréttatilkynningu sem Alþjóða dýraverndunarsjóðurinn (IFAW, International Fund for Animal Welfare) sendi frá sér í gær segir að 148 langreyðar hafi verið drepnar á vertíðinni sem sé að ljúka. Samkvæmt heimildum IFAW tókst ekki að drepa fjórðung dýranna með einu sprengjuskoti og sé það lýsandi um þá grimmd sem felist í veiðunum.

„Það er óbærilegt að hugsa til þess hversu mikið þessi dýr kveljast. Rannsóknir hafa sýnt að það líði allt að 25 mínútur áður en hvalur drepst af sprengjuskoti í skutli,“ segir Sharon Livermore, yfirmaður deildar sem fer með verndarmálefni sjávardýra innan IFAW. „Einum hval var landað í sumar með fjóra skutla í skrokknum. Það gefur til kynna að margir hvalanna þurfa að þola langan og erfiðan dauðdaga.“

Mynd: ÓJ

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, setti reglugerð í ágústmánuði um eftirlit með hvalveiðum. Matvælastofnun var falið að hafa eftilit með því að farið væri að lögum um velferð dýra. Fiskistofa sér um eftirlitið. Livermore fagnar því að stjórnvöld ætli að hafa eftirlit með þessum aðferðum sem notaðar séu við hvalveiðar hér við land. Hún leggur til að myndefnið sem veiðieftirlitsmenn safni verði birt opinberlega í vetur og farið verði yfir það af alþjóðlegum sérfræðingum til að tryggja gagnsæi.

„Niðurstöður þessara athugana þurfa að vera hafnar yfir allan vafa. Þá mun heimurinn allur sjá hversu grimmilegar og fjárhagslega óréttlætanlegar þessar veiðar eru. Við hvetjum matvælaráðherra til að sjá til þess að farið verði vandlega í saumana á fjárhagslegri hlið veiðanna með alþjóðlega viðurkenndum aðferðum. Það að Japan sé eini markaðurinn og að opna þurfi flutningaskipum með kjötið leið gegnum ís Norðurskautsins sýnir að þetta geti ekki borið sig efnahagslega eða þjónað hagsmunum Íslendinga,“ segir Livermore.

Mynd: ÓJ

Margir íslenskri ferðaþjónustu hafa gagnrýnt hvalveiðarnar harðlega í sumar. Sérstaklega var Lilja Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra, gagnrýnd fyrir stuðning við hvalveiðarnar og að standa ekki með ferðaþjónustunni. Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði í frétt Túrista 6. júlí: „Það eru satt að segja mikil vonbrigði að ferðamálaráðherra skuli vera fylgjandi hvalveiðum á sama tíma og atvinnugreinin sjálf, og reynslumikið fólk innan hennar, hafa varað við neikvæðum áhrifum hennar á ferðaþjónustu og ímynd Íslands sem ferðamannalands.“

Forráðafólk hvalaskoðunarfyrirtækjanna hefur auðvitað margt áhyggjur af orðspori Íslendinga. Rannveig Grétarsdóttir, eigandi hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar og stjórnarformaður Íslenska ferðaklasans, ræddi þetta í viðtali við Túrista 26. ágúst: „Fyrir mér eru hvalveiðar eitthvað sem tilheyrir gamla tímanum. Þetta eru gamaldags veiðar sem alþjóðasamfélagið umber ekki. Veiðarnar sem slíkar hafa ekki bein áhrif á okkar ferðir en þær hafa það á söluna hér á Íslandi og orðspor okkar. Ég veit að hvalveiðarnar valda vandræðum í utanríkismálum okkar og á starf allra sem eru að flytja út vörur. Við í ferðaþjónustunni erum mikið úti á markaðnum að selja og fáum viðbrögð fólks. Það væri auðvitað frábært ef við gætum bara verið stolt af sögunni og Kristján Loftsson breytti hvalstöðinni í ferðamannastað.”