Djöfulleg reið um dásemdarland

Ferðafrömuðir um allt land sjá í hendi sér að einn efnilegasti sproti ferðaþjónustunnar er að laða að hjólreiðafólk - Ísland sé draumaland fjallahjólreiðakappa. Þetta er rækilega staðfest í skemmtilegri grein sem Kevin Rushby ritar í The Guardian um hjólaferð sem hann fór um Austfirði í sumar.

Af vef The Guardian

Greinarhöfundur lýsir því hvernig Ísland, hrjóstrugt og vindasamt, birtist honum um borð í ferjunni frá Færeyjum og hve honum hafi brugðið við að sjá snjó í fjöllum á þessu methitasumri í Evrópu. Hann lýsir því hvernig Ísland komst á ferðakort túristanna, Game of Thrones og Instagram hafi kynt þar undir. „Ein áhrifin hafa orðið að heitir reitir eru núna logandi. Ef foss er lofsunginn eða sjónarhorn fyllist allt af fólki en afgangurinn verður út undan,” segir Kevin Rushby, sem skrifar líflega um þessa ferð sína um brattar, grýttar en ægifagrar slóðir á Austfjörðum. Það sé djöfullega erfið reið að hjóla um landið – en auðvelt að falla fyrir því.

Kevin segist hafa verið varaður við Víknaslóðum – að erfitt gæti verið að hjóla þá leið. „Þann dag uppgötvaði ég mikilvæg sannindi: Ef Íslendingar segja að eitthvað sé erfitt þá er það rétt. Á sama hátt og landið er ekki klætt trjám er fólk ekkert að fegra það sem það segir.”

Þessi enski ferðamaður fer úr einum stað í annan fyrir austan og hreppir veður af ýmsu tagi eins og vænta má en ferðin verður honum augljóslega minnisstæð.

Það kæmi ekki á óvart að um borð í Norrænu næsta sumar verði töluvert fleiri ævintýragjarnir og umhverfisþenkjandi hjólreiðakappar og eins og Kevin Rushby, sem segist eiginlega bara ferðast á innan við 30 kílómetra hraða og hyggist halda því áfram. Svo sé dáyndisgott að taka ferjuna og losna við þrengslin á flugvöllunum.