Dýrara með Icelandair en Play í skíðaferðirnar til Austurríkis

Það verða sæti fyrir nokkur þúsund Íslendinga í skíðaflugi íslensku flugfélaganna til Salzburg í vetur. MYND: SALZBURGERLAND

Hér áður fyrr var Wow Air eitt um að fljúga fljúga Íslendingum í skíðaferðir til Austurríkis og stjórnendur Play hafa sennilega vonast eftir að fá frið fyrir Icelandair á þessari leið. Svo fór ekki því stuttu eftir að Play hóf sölu á flugmiðum til Salzburg í fyrra þá gerði Icelandair slíkt hið sama.

Og nú í vetur hafa félögin bætt við ferðum til Salzburg og þá sennilega fyrst og fremst í von um aukin áhuga á skíðamennsku en ekki klassískri músík en þessari í fæðingarborg Wolfgang Amadeus Mozart er alla jafna töluvert um alls kyns tónleikahald.

Bæði félög fljúga einu sinni í viku til Salzburg og brottfarir eru á laugardögum í langflestum tilvikum. Og eins og sjá má hér fyrir neðan þá eru sætin í dag dýrari hjá Icelandair en Play en aftur á móti borga farþegar þess síðarnefnda meira fyrir að taka með sér farangur og líka skíðin. Félagið hefur nefnilega hækkað verðið á þessu tvennu á meðan Icelandair heldur í sömu verðskrá og í fyrra.