Ennþá lengist biðin eftir kínverskum ferðamönnum

Universal skemmtigarðinum í Peking var lokað í gær vegna Covid-19. Mynd: Universal Beijing

Það voru 139 þúsund kínverskir ferðamenn hér á landi árið 2019 en það sem af er þessu ári nemur fjöldinn rétt 16 þúsund. Samdrátturinn skrifast á sóttvarnaraðgerðir kínverskra stjórnvalda sem ennþá halda landamærunum nærri lokuðum. Útbreiðslu kórónaveirunnar innanlands er svo haldið í skefjum með því að einangra íbúa hverfa og jafnvel borga.

Og það er ekki útlit fyrir að slakað verði á þessum aðgerðum á næstunni. Síðast í gær var skemmtigarði Universal kvikmyndaversins í Peking lokað vegna tilfella af Covid-19 sem rakin voru þangað.

Biðin eftir því að kínverskir ferðamenn streymi hingað til lands á ný verður því sennilega töluvert lengri.

Og það hefur áhrif á framboð á flugi til Keflavíkurflugvallar. Stór hluti þeirra sem nýttu sér daglegar ferðir Finnair hingað til lands voru túristar frá Asíu og félagið hefur því dregið verulega úr umferðinni hingað. Það hefur einnig komið fram í viðtölum Túrista við stjórnendur British Airways og Lufthansa að Íslandsflug félaganna hafi byggt að nokkru leyti á traffík frá Austurlöndum fjær. Það munar því um minna þegar Kínverjar fljúga í miklu minna mæli til Evrópu en áður.