Eyðum minna í Fríhöfninni en fyrir faraldur en meiru í ÁTVR

Úr komuverslun Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli. MYND: FRÍHÖFNIN

Kaup á tollfrjálsum vörum með íslenskum greiðslukortum námu samtals 2,9 milljörðum króna á tímabilinu júní til september í ár. Í krónum talið er þetta álíka upphæð og á sama tíma árið 2019 samkvæmt tölum Rannsóknarseturs verslunarinnar en þegar tekið er tillit til almennra verðlagshækkana þá nemur samdrátturinn 13 prósentum.

Skýringin á þessari niðursveiflu liggur ekki í færri utanlandsferðum því átta prósent fleiri Íslendingar áttu leið um Leifsstöð síðustu fjóra mánuði en á sama tíma árið 2019.

Það eru því vísbendingar um að íslenskir flugfarþegar eyði að jafnaði minna en áður í tollfrjálsan varning en aftur á móti hafa viðskiptin við íslenskar áfengisverslanir aukist. Þar voru íslensk greiðslukort nýtt til að greiða fyrir vörur upp á 11,5 milljarð króna síðustu fjóra mánuði sem viðbót um 700 milljónir eða 6 prósent á verðlagi dagsins í dag.

Tekið skal fram að innan við tvö prósent af veltunni sem eignuð er áfengisverslunum er rakin til netverslanna.