Fá samþykki fyrir kaupum á Lotus bílaleigu

Bílafloti Lotus telur rúmlega 600 bíla í dag. MYND: LOTUS

Eignarhaldsfélagið Top, eigandi bílaumboðsins Öskju, vinnur nú að kaupum á bílaleigunni Lotus og í úrskurði sínum fyrr í dag veitti Samkeppniseftirlitsins heimild fyrir viðskiptunum.

Aðspurður um kaupin þá segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju og Top, að með þessu sé ætlunin að efla stoðir Top en auk Öskju þá á félagið Sleggjuna sem er sölu- og þjónustumboð fyrir Mercededs-Benz og Setra vöru- og hópferðabíla.

„Top kemur inn sem kjölfestufjárfestir í félaginu og markmiðið með kaupum er að styðja við reksturinn og dreifa áhættu en rekstur bílaumboðs og bílaleigu er ólíkur að mörgu leyti þó svo að bílar og flutningatæki séu í lykilhlutverki öllum í þessum félögum,“ segir Jón Trausti.

Þeir Alexander Haraldsson og Guðmundur Hlífar Ákason sem stýrt hafa Lotus munu áfram starfa hjá fyrirtækinu og halda eftir hlut. Alexander segir að ekki sé til skoðunar að fara í samstarf við erlenda bílaleigukeðju og bætir við að ekkert liggi fyrir um stækkun flota bílaleigunnar en hann telur í dag rúmlega 600 bíla.

„Við erum mjög ánægðir með að hefja samstarf með nýjum eigendum Lotus og ætlum okkur að veita góða þjónustu á þeim markaði sem við vinnum á sem er bílaleiga til erlendra ferðamanna“, segir Alexander að lokum.