Fellur úr öðru sætinu á lista yfir stærstu hluthafa Icelandair

Níu íslenskir lífeyrissjóðir eru á lista yfir 20 stærstu hluthafa Icelandair. Sá atkvæðamesti seldi 12 prósent af bréfunum sínum í september.

Icelandair stóð fyrir um sex af hverjum tíu ferðum til og frá Keflavíkurflugvelli í síðasta mánuði. Mynd: Denver Airport

Nú í sumarlok var lífeyrissjóðurinn Brú annar stærsti hluthafinn í Icelandair með 4,06 prósent. Í nýliðnum september seldi sjóðurinn hins vegar 200 milljón hluti eða um 12 prósent af eign sinni í flugfélaginu. Gengi hlutabréf Icelandair fór hæst í 2 krónur á hlut í síðasta mánuði en hefur lækkað um 15 prósent síðustu tvær vikur.

Brú á í dag 3,58 prósent hlut í Icelandair og er því komið niður fyrir Íslandsbanka og Arion á lista yfir 20 stærstu hluthafana. En gera má ráð fyrir að stór hluti af þeim hlutabréfum sem bankarnir tveir eru skráðir fyrir séu í eigu viðskiptavina þeirra.

Langstærsti hluthafinn í Icelandir er bandaríski sjóðurinn Bain Capital Credit með 17,2 prósent hlut en öll bréfin eru skráð á írskt skúffufélag, Blue Issuer DAC. Af þeim sökum kemur heiti Bain Capital Credit ekki fyrir á hluthafalista Icelandair.