Fer frá Play

Þóra Eggertsdóttir hættir sem yfirmaður fjármálasviðs Play. MYNDIR: PLAY OG SCHIPOL

Þóra Eggertsdóttir sem verið hefur framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play síðustu 17 mánuði hefur sagt starfi sínu lausu. „Ég hef ákveðið að breyta til og skipta um takt og ákvað að segja skilið við félagið,“ skrifar Þóra í tilkynningu frá Play en hún var yfirmaður innanlandsflugs Icelandair þegar hún var ráðin til keppinautarins í maí í fyrra.

Til viðbótar við störf sín hjá flugfélögunum þá hefur Þóra átt sæti í stjórn Birtu en sá lífeyrissjóður er næststærsti hluthafinn í Play.

Þóra er ekki sú eina sem hverfur úr framkvæmdastjórn Play í ár því í mars sl. hætti Arnar Már Magnússon, einn af stofnendum flugfélagsins og fyrrum forstjóri, sem yfirmaður flugrekstrarsviðs.

Líkt og Túristi greindi frá í gær þá mun Play birta uppgjör sitt fyrir þriðja ársfjórðung þremur vikum fyrr en upphaflega var gert ráð fyrir.