Ferðamannastraumurinn milli Íslands og Færeyja jókst í sumar

Samgöngur milli frændþjóðanna takmarkast ekki við flugið.

Undir Bryggjubakka í Þórshöfn. MYND: Ferðamálaráð Færeyja

Þotur færeyska flugfélagsins Atlantic Airways flugu að jafnaði annan hvern dag til Keflavíkuflugvallar í sumar og Norræna fór reglulega milli Þórshafnar og Seyðisfjarðar. Og það er ekki annað að sjá en að heimamenn í Færeyjum hafi í sumar nýtt sér þessar samgöngur í meira mæli en þeir gerðu fyrir heimsfaraldur. Í júní, júlí og ágúst voru gistinætur Færeyinga hér á landi nefnilega 999 talsins sem er viðbót um 71 prósent frá sumrinu 2019 samkvæmt Hagstofunni.

Íslendingar ferðuðust líka oftar til Færeyja því í heildina keyptu Íslendingar 2419 gistinætur á eyjunum í sumar sem er viðbót um tíund frá því sem var fyrir þremur árum síðan.

Í Færeyjum fjölgaði gistinóttum útlendinga í sumar um fjörtíu af hundraði frá því sem var fyrir Covid-19 en til samanburðar nam viðbótin hér á landi nam aukningin 4 prósentum. Danir eru langstærsti kúnnahópur færeyskra gististaða en þar á eftir koma Norðmenn, Þjóðverjar og Bretar.