Finnair orðið verðmætara en Icelandair á ný

Horft yfir farþegarými í einni af Airbus breiðþotum Finnair. MYND: FINNAIR

Eftir lokun Kauphallarinnar á fimmtudag birtu stjórnendur Icelandair uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung og niðurstaðan var hagnaður upp á um 8 milljarða króna. Mettekjur af farmiðasölu og hátt eldsneytisverð einkenndu uppgjörið.

Icelandair hefur aldrei áður fengið jafn mikið út úr hverjum og einum farþega en á sama tíma hækkaði eldsneytisreikningur félagsins umtalsvert og nam um 19 milljörðum króna fyrir júlí, ágúst og september.

Þegar Kauphöllin opnaði á föstudagsmorgun var stemningin á markaðnum þung vegna áforma fjármálaráðherra að setja gamla Íbúðarlánasjóðinn í slitameðferð. Hlutabréfin í Icelandair féllu svo mest allra í Kauphöllinni eða um fimm prósent.

Markaðsvirði flugfélagsins lækkaði því um tvo af hundraði í vikunni og nemur nú tæpum 76 milljörðum.

Þróunin var önnur hjá Finnair sem hækkaði í vikunni fór virði hlutafjár félagsins upp í 77 milljarða. Þar með er finnska félagið á ný orðið verðmætara en Icelandair en það íslenska hefur verið næstverðmætasta flugfélag Norðurlanda frá því í sumarlok.

Sem fyrr er Norwegian hæst metið en markaðsvirði þess er um 98 milljarðar í dag eins og sjá má hér fyrir neðan.

Hástökkvari vikunnar var aftur á móti SAS en áfram halda fjárfestar að kaupa og selja bréf í félaginu þrátt fyrir að núverandi hlutafé verði að langmestu leyti afskrifað í hlutafjárútboði sem ætlunin er að efna til á næsta vori. En áður en að því kemur þarf að klára fjárhagslega endurskipulagningu félagsins sem unnið er að í skjóli bandarískrar gjaldþrotaverndar.