Fleiri gistinætur en á metárinu

Gistinætur hér á landi eru orðnar fleiri en árið 2018. Sveiflurnar mun meiri í fjölda íslenskra gesta.

Herbergi á Fosshóteli á Fáskrúðsfirði. Íslendingar bókuðu miklu fleiri gistinætur á Austurlandi nú í september en á sama tíma fyrir fjórum árum síðan. MYND: FOSSHÓTEL

Þegar tveir deila tveggja manna hótelbergi í eina nótt þá teljast gistinæturnar tvær og á sama hátt jafngildir það fjórum gistinóttum þegar eins manns herbergi er leigt út í fjórar nætur. Og fyrstu níu mánuði ársins voru gistinætur hér á landi rúmlega 7,1 milljón. Hafa þær aldrei verið fleiri samkvæmt talningu Hagstofunnar. Í samanburði við metárið 2018 nemur aukningin 2 prósentum eða ríflega eitt hundrað þúsund nóttum.

Í september voru gistinæturnar 854 þúsund og stóðu útlendingar undir 81 prósent af fjöldanum. Gistinætur þeirra voru álíka margar í flestum landshlutum í samanburði við september 2018 en þó var nokkur aukning í fjölda erlendra gesta á Suðurlandi og Norðurlandi.

Sveiflurnar voru miklu meiri þegar kemur að íslenskum gistinóttum í september. Þær voru til að mynda fjórfalt fleiri á Austurlandi og Suðurnesjum að þessu sinni og þreföldun varð í ásókn Íslendinga í gistingu á Suðurlandi.