Flugreksturinn gengur betur en gert var ráð fyrir

Stjórnendur Lufthansa Group, stærstu flugfélagasamsteypu Evrópu, gáfu það út í gær að tekjurnar á þriðja ársfjórðungi, júlí til september, hefðu verið tvöfalt hærri en á sama tíma í fyrra. Af þeim sökum er gert ráð fyrir fjórfalt hærri EBIT hagnaði eða um 1,1 milljarði evra en sú upphæð jafngildir 156 milljörðum króna.

Í tilkynningu þýsku samsteypunnar kemur jafnframt fram að bókunarstaðan fyrir næstu mánuði sé góð og auk þess stefni í methagnað af fraktflutningum. Af þeim sökum gera stjórnendur Lufthansa Group ráð fyrir að afkoman í ár verði betri en núverandi afkomuspá gerir ráð fyrir.

Uppgjör Lufthansa Group fyrir þriðja ársfjórðung verður formlega birt þann 27. október.

Innan Lufthansa Group eru nokkur flugfélög og fjögur þeirra halda úti flugi til Íslands. Hið þýska Lufthansa flýgur hingað frá Frankfurt og Munchen, Edelweiss frá Zurich, Austrian frá Vínarborg og Eurowings frá Dusseldorf.