Geta sett flug milli Bretlands og Bandaríkjanna á fullt

Þotur Norse munu verða meira áberandi við bandarískar flugstöðvar á næstunni. MYND: NORSE ATLANTIC

Norwegian var á tímapunkti umsvifamesta evrópska flugfélagið á JFK flugvelli í New York og stórtækt í ferðum til fjölda annarra áfangastaða vestanhafs. Norska félagið var þó farið að hægja aðeins á þegar heimsfaraldurinn hófst sem skrifaðist meðal annars á kyrrsetningu Boeing Max þotanna og endurteknar bilanir á hreyflum Boeing Dreamliner.

Við fjárhagslega endurskipulagningu Norwegian í heimsfaraldrinum var tekin ákvörðun um að losa sig við síðarnefndu flugvélarnar og hætta öllu flug yfir Atlantshafið.

Og nú í sumar tók annað norskt félag, Norse Atlantic, við keflinu en meðal forsvarsmanna þess er Bjørn Kjos, stofnandi og fyrrum forstjóri Norwegian. Norse leigir Dreamliner þotur sem Norwegian var áður með og býður í dag upp á Ameríkuflug frá Ósló, London og Berlín. Félagið ætlar sér þó stærri hluti og sérstaklega í áætlunarflugi frá Bretlandi til Bandaríkjanna.

Liður í þeim áformum var sérstakt flugrekstrarleyfi í Bretlandi og fékkst heimild fyrir því nú í haust. Í morgun tilkynntu svo stjórnendur Norse að hið breska dótturfélag hefði fengið grænt ljós hjá bandarískum samgönguyfirvöldum.

Af því tilefni sagði forstjóri Norse að nú geti félagið fyrir alvöru blandað sér í samkeppnina um farþega á leið yfir Atlantshafið. En eins og lesendur Túrista þekkja þá gera Icelandair og Play einmitt líka út á þennan farþegahóp. Félögin tvö eiga því von á meiri samkeppni frá hinu nýja norska lágfargjaldafélagi næstu misseri.