Hlutfall óseldra sæta ennþá lægra en áður var

Það voru 387 þúsund farþegar sem nýttu sér ferðir Icelandair til og frá Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvelli í september. Til samanburðar taldi hópurinn 447 þúsund farþega í september 2019 og 456 þúsund í september 2018.

Að þessu sinni var sætanýtingin hærri eða 83,3 prósent sem er nýtt met í þessum mánuði að því segir í tilkynningu frá Icelandair. Á árunum fyrir heimsfaraldur var nýtingin um 81 prósent eða fór upp í 83 prósent í september 2015. Sætanýtingin hjá Icelandair í júlí og ágúst var líka hærri en á árunum fyrir Covid-19.

Aðeins 71 prósent ferða Icelandair var á áætlun í síðasta mánuði og í tilkynningu segir að skýringin á lakari stundvísi liggi meðal annars af vondu veðri við Keflavíkurflugvöll.

„Það er ánægjulegt að sjá þann viðsnúning sem orðið hefur í starfseminni og hve vel hefur gengið að koma félaginu á réttan kjöl eftir heimsfaraldur. Sætanýting hefur aldrei verið betri, farþegafjöldinn hefur náð góðu jafnvægi undanfarna mánuði og hlutfall tengifarþega er farið að nálgast það sem það var áður.

Þessum viðsnúningi hafa þó fylgt áskoranir. Í sumar sáum við skýrt að innviðirnir á mörgum flugvöllum sem við fljúgum til erlendis héldu ekki í við vöxtinn og hlutust af því nokkrar raskanir. Við höfum jafnframt staðið frammi fyrir áskorunum í innanlandsfluginu, meðal annars vegna viðhaldsverkefna sem hafa valdið röskunum á flugi. Við vinnum nú markvisst að því að bæta þjónustu við farþega og tryggja stöðugleika í flugáætluninni innanlands. Ég vil þakka viðskiptavinum fyrir þolinmæðina í gegnum þetta uppbyggingartímabil og starfsfólki félagsins fyrir þeirra mikilvæga framlag,“ skrifar Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningu.