Horfurnar ekki góðar að mati stjórnenda Heathrow

Heathrow í London er aftur orðin fjölfarnasta flughöfn Evrópu. MYND: HEATHROW AIRPORT

Forstjórar breskra flugfélaga gagnrýndu neikvæðan tón í yfirlýsingum Heathrow flugvallar í sumarbyrjun en þar var talað um eftirspurnarbólu sem myndi springa nú í vetur. Húsráðendur á Heathrow flugvelli reyndust ekki sannspáir varðandi sumarið því umferðin var töluvert meiri en þeir höfðu gert ráð fyrir. Af þeim sökum þurfti að grípa til takmarkanna á flugumferð enda réðu starfsmenn flugvallarins ekki við allan þennan fjölda.

Þrátt góðan sumarvertíð þá eru stjórnendur Heathrow enn sem fyrr svartsýnir fyrir veturinn eins og fram kemur í fréttatilkynningu sem þeir sendu frá sér fyrr í dag. Þar segir að versnandi horfur í efnahagsmálum og harðnandi stríðsátök í Úkraínu hafi aukið enn frekar óvissuna.

Í nýliðnum september var fjöldi farþegar á Heathrow flugvelli um 85 prósent af því sem var á sama tíma árið 2019 og þar með er breski flugvöllurinn á ný fjölfarnasta flughöfn Evrópu.