Icelandair bætir við sólarstrandarferðum

Horft yfir Puerto Rico de Gran Canaria. MYND: Miltiadis Fragkidis / UNSPLASH

Sú var tíðin að Icelandair lét öðrum eftir áætlunarflug með Íslendinga suður á bóginn. Wow Air var því stórtækt á þessum markaði en við fall þess félags boðaði Icelandair aukna áherslu á flug til Spánar. Kyrrsetning Boeing Max þotanna kom í veg fyrir að þau áform yrðu að veruleika. Norwegian fyllti því það skarð sem Wow Air skildi eftir sig á markaðnum í flugi héðan til Spánar.

Síðastliðið ár hefur Icelandair hins vegar sótt í sig veðrið á sólarferðamarkaðnum. Starfsemi ferðaskrifstofunnar Vita er nú orðin hluti af rekstri flugfélagsins og Tenerife og Alicante eru hluti af leiðakerfinu. Og nú verður Las Palmas á Gran Canaria það líka samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu.

Fyrsta flug er á dagskrá þann 15. nóvember og flogið verður einu sinni í viku fram til 11. apríl á næsta ári.

 „Það er spennandi að bæta Gran Canaria inn í leiðkerfið okkar sem nær nú til um 40 áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku. Í fyrra bættum við Tenerife í áætlun okkar og höfum við fengið mjög góð viðbrögð frá okkar viðskiptavinum og sérstaklega Íslendingum sem sækja í sólina. Eftir samþættingu Icelandair og ferðaskrifstofunnar Vita hafa skapast spennandi tækifæri eins og þessi til þess að efla leiðakerfi okkar og auka þjónustuna við viðskiptavini,“ skrifar Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningu.