Íslandsflugið frá Napólí heyrir sennilega sögunni til

Í ár hafa miklu fleiri Ítalir heimsótt Ísland en árunum fyrir heimsfaraldur. Samgöngurnar milli Íslands og suðurhluta Ítalíu verða þó litlar á næstunni miðað við nýjustu breytingar.

Nú kemst landinn ekki lengur beint til Napólí. Mynd: Danilo d'Agostino - Unsplash

Síðastliðinn sunnudag fór þota Wizz Air í loftið frá Keflavíkurflugvelli og tók stefnuna á Napólí. Þetta var 58. ferð ungverska flugfélagsins héðan til ítölsku borgarinnar á þessu ári og jafnframt sú síðasta.

Ekki bara í ár því biðin eftir næstu ferð til Napólí gæti orðið miklu lengri en útlit var fyrir.

Það var nefnilega ætlun stjórnenda Wizz Air að gera eingöngu hlé á Íslandsfluginu frá ítölsku borginni í vetur en taka upp þráðinn í vor. Nú er hins vegar ekki lengur hægt að bóka sæti á þessari leið og ekki fást skýringar hjá blaðafulltrúum félagsins á breytingunni.

Eins og staðan er í dag hefur því valkostum þeirra sem ætla héðan til Ítalíu fækkað en framboðið er engu að síður miklu meira en tíðkaðist. Áður takmörkuðust samgöngurnar milli Íslands og Ítalíu nefnilega við sumarferðir til Mílanó. Í ár hefur hins vegar líka verið hægt að fljúga héðan í hverri viku til Rómar, Feneyja, Veróna, Bologna og Napólí.

Þessi mikla breyting endurspeglast í talningu á ítölskum ferðamönnum hér á landi því þeir hafa verið miklu fleiri en á árunum fyrir heimsfaraldur eins og sjá má hér fyrir neðan. Og gera má ráð fyrir að mun fleiri Íslendingar hafi heimsótt Ítalíu að undanförnu en áður.

Þar á meðal báðir blaðamenn Túrista en hér má lesa nýja grein um áskoranir ferðaþjónustunnar í Róm.