Íslandsflugið næsta sumar í föstum skorðum

Þota United við Leifsstöð. MYND: ISAVIA

Síðustu tvö sumur hefur bandaríska flugfélagið United Airlines boðið upp á daglegar áætlunarferðir hingað frá bæði New York og Chicago og á þessari dagskrá verður ekki breyting næsta sumar. Talsmaður félagsins staðfestir við Túrista að reiknað sé með að hefja vertíðina hér á landi þann 13. maí með flugi frá New York og þann 26. maí bætast við ferðir frá Chicago.

Síðasta ferð næsta sumars frá Chicago er á dagskrá í lok september og mánuði síðar verður gert hlé á fluginu frá New York.

Sem fyrr nýtir United Boeing 757 þotur en félagið hefur einnig horft til þess að fljúga hingað nýjum langdrægum Airbus A321LR þotum. Á því verður þó sennilegast bið.

Delta, Icelandair og Play halda líka úti daglegum ferðum milli Íslands og New York en aftur á móti eru United og Icelandair ein um ferðirnar frá Chicago. Og íbúar þeirrar borgar eru í minnihluta í þotum United sem taka á loft frá O´Hare flugvelli og setja stefnuna á Keflavík líkt og fram kom í viðtali Túrista við sölustjóra United nú í vor. Aftur á móti eru heimamenn í New York fleiri í Íslandsfluginu frá Newark flugvelli.