Samfélagsmiðlar

Japan opnað ferðafólki

Eftir meira en tveggja ára ferðahindranir vegna Covid-19 hafa Japanar aflétt kröfum um vegabréfsáritanir ferðafólks frá fjölda landa og horfið frá ströngu eftirliti á landamærum. Ríkisstjórnin vonast til að endurkoma ferðafólksins blási lífi í efnahag landsins. Þó er þess ekki að vænta að endurheimtin verði hröð vegna þess að mikill skortur á vinnuafli dregur úr getunni til að taka á móti erlendum gestum að nýju.

Kvöld í Tókýó

Það eru blendnar tilfinningar sem bærast með Japönum í dag þegar helstu hindrunum fyrir endukomu ferðafólks frá fjölmörgum löndum er rutt úr vegi. Margt eldra fólkið kunni vel að meta friðinn sem færðist yfir götur og torg í fjarveru túristanna, sem eru ekki aðeins háværir og fyrirferðarmiklir heldur gæti líka stafað af þeim smithætta. Yngra fólkið er opnara og jákvæðara í garð útlendinganna. Forráðamenn ferðaþjónustunnar í landinu varpa örugglega öndinni léttar enda gengið í gegnum miklar þrengingar á tímum kórónafaraldursins. Þá vonast Fumio Kishida, forsætisráðherra, eftir því að aukinn straumur ferðafólks örvi japanskt efnahagslíf. Ekki mun af veita. Jenið hefur ekki verið verðminna í 24 ár, segir Reuters-fréttastofan.

Taito-hverfi í Tókýó – Mynd: ÓJ

Aðeins rúmlega hálf milljón ferðamanna hefur komið til Japans það sem af er ári miðað við tæplega 32 milljónir á sama tíma 2019. Vonast hafði verið eftir 40 milljónum 2020, árið sem sumarólympíuleikarnir voru haldnir, en kórónaveiran slökkti í þeim vonum. Nú áætlar ríkisstjórnin að ferðafólkið gæti skilað japönsku hagkerfi framvegis árlega sem svarar 34,5 milljörðum Bandaríkjadollara. Það gæti verið full mikil bjartsýni vegna þess hversu lítt sveigjanlegur japanskur vinnumarkaður er og ferðaþjónustan löskuð eftir faraldurinn. Meira en fimmti hver hótelstarfsmaður í landinu missti vinnuna.

Forráðamenn Japan Airlines segja að bókanir á flugi til landsins hafi þrefaldast frá því tilkynnt var um tilslakanirnar en búast ekki við að eftirspurn erlendis verði orðin jafn mikil og fyrir faraldur fyrr en árið 2025. Dauflegt er um að litast á Narita-flugvelli við Tókýó. Helmingur verslana og veitingastaða er enn lokaður. Eigendur þeirra búast ekki við hröðum viðsnúningi og benda á að enn verði bið á því að ferðafólk frá mörgum löndum láti sjá sig, nægir þar að nefna kínverska ferðamenn. Þá verða áfram í gildi kvaðir um að fólk beri andlitsgrímur í fjölmenni og sýni mikla tillitssemi. Það gæti vantað aðeins upp á gleðina og áhyggjuleysið sem ríkti fyrir faraldur.

Götumynd frá Tókýó fyrir faraldur – Mynd: ÓJ

Jafnvel þó ráðamenn í Japan reikni það út á blaði hversu mikils megi vænta af endurkomu ferðafólks frá Vesturlöndum þá er augljóst að margar hindranir eru í veginum, ekki síst áðurnefndur skortur á starfsfólki. Þrjú af hverjum fjórum hótelum í Japan vantar fólk. Margir sem þjónuðu túristum fyrir faraldurinn eru horfnir til annarra og betur launaðra starfa. Ekki verður einfalt að laða þetta fólk til baka enda ferðaþjónustan í landinu alræmd fyrir að borga lág laun. Líklega þarf að koma til opinber stuðningur eða niðurgreiðslur til að auðvelda japanskri ferðaþjónustu róðurinn og til að væntingar um hraða endurheimt í hagkerfinu gangi eftir.

Nýtt efni

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …