Lætur gott heita sem ferðamálastjóri

Skarphéðinn Berg Steinarsson
Skarphéðinn Berg ferðamálastjóri segist áfram vilja láta að sér kveða í ferðaþjónustu en nú á öðrum vettvangi. MYND: ÓJ

Skarphéðinn Berg Steinarsson hefur ákveðið að láta af störfum sem ferðamálastjóri um áramótin. Þetta tilkynnti hann starfsfólki Ferðamálastofu fyrr í dag en nú eru fimm ár liðin frá því að Skarphéðinn tók við embættinu. Honum bauðst að halda áfram önnur fimm ár en hefur ákveðið að láta gott heita.

Spurður um ákvörðunina þá segist Skarphéðinn mjög sáttur við tíma sinn sem ferðamálastjóri. Viðfangsefnin hafi verið fjölbreytt og gefandi. Margt hafi áunnist á þessum fimm árum í að bæta starfsumhverfi ferðaþjónustu.

Skarphéðinn bætir því við að hugur sinn standi til þess að takast á við nýjar áskoranir í greininni en hvað nákvæmlega það verði eigi eftir að koma í ljós.

„Það er uppgangur í ferðaþjónustunni sem býður upp á mörg tækifæri sem mig langar að taka þátt í vinna að og nýta.“

Í viðtali Túrista í sumar ræddi Skarphéðinn Berg stöðu ferðaþjónustunnar frá ýmsum sviðum, til að mynda fjárhagsstöðu greinarinnar, umhverfismálin og margt fleira.